Fara í efni
Fréttir

Þurfum ekki síma – það hringir aldrei neinn!

Ánægð með verkið! Frá vinstri: Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður, Halla Björk Reynisdóttir, …
Ánægð með verkið! Frá vinstri: Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður, Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar Akureyrar, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs, Hjördís Þórhallsdóttir, flugvallarstjóri á Akureyri, Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia innanlandsflugvalla, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, Hjalti Þórarinsson, verkefnastjóri flugklasans Air 66N á Markaðsstofu Norðurlands, og Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Hjalti Þórarinsson, verkefnastjóri flugklasans Air 66N á Markaðsstofu Norðurlands, sagði í gær, þegar fyrsta skóflustungan var tekin að stórri viðbyggingu við flugstöðina á Akureyri, að þessi langþráða framkvæmd væri í raun grundvöllur fyrir áframhaldandi uppbyggingu samgangna og eflingu millilandaflugs um Akureyrarflugvöll.

„Með því að byggja þessa innviði til þess að geta raunverulega opnað nýja fluggátt á Íslandi, er verið að stíga gríðarlega stórt framfaraskref. Og það skemmtilegasta er, að þetta er líka svo skynsamleg framkvæmd. Aukið millilandaflug um Akureyrarflugvöll gerir nefnilega svo margt,“ sagði Hjalti, og taldi upp eftirfarandi atriði:

  • Gjörbreytir möguleikum ferðaþjónustu til að vaxa og dafna – ekki bara á Norðurlandi eða Austurlandi, heldur um allt land.
  • Minnkar árstíðasveiflu og stuðlar að fjölgun heilsársstarfa í ferðaþjónustunni
  • Skapar skilyrði fyrir að starfrækja öfluga vetrarferðaþjónustu á Norðurlandi – allt er til staðar en það vantar tenginguna við erlenda markaði.
  • Skapar skilyrði, og er í raun forsenda að mati erlendra sérfræðinga, fyrir þróun og velgengni íslenskrar ferðaþjónustu til framtíðar.
  • Er þjóðhagslega hagkvæmt, skv. útreikningum hagfræðinga.
  • Þá er eftir að telja atriði eins og bætt lífsgæði fyrir íbúa og eflingu byggðar og atvinnulífs, sem allt kemur með bættum samgöngum.

Af hverju er þetta ekki löngu búið?

Síðan sagði Hjalti: „Nú gæti einhver spurt sig – ef þetta er svona skynsamlegt og hagkvæmt, af hverju er ekki löngu búið að þessu. Svarið við því er ekki bara eitthvað eitt – en eitt af því sem spilar inn í er fjármagn. Þetta kostar peninga, og áður en farið er að fjárfesta er spurt – er þörf á þessu? Eðlilega. Og þá koma efasemdaraddirnar – ja, það eru nú svo fá flug og fáir farþegar að það er ekkert með þetta að gera.

Þetta minnir mig á innslag úr áramótaskaupinu frá ´85, þar sem þeir Magnús og Eyjólfur voru spurðir að því hvort þeir væru ekki með síma. Þeir svöruðu því til að þeir væru ekki með síma – og þyrftu þess ekki að því það hringdi aldrei neinn í þá.

Við erum hér að fást við hina eilífu spurningu um hænuna og eggið og hvort kemur á undan. Ég veit í raun ekki hvort kemur á undan – en það er alveg ljóst í mínum huga að það koma hvorki hænur né egg ef ekkert er hreiðrið.

Við þurfum að hafa dug og þor til þess að byggja hreiður fyrir allan hænsnastofninn í okkar litla landi. Við þurfum að fjárfesta fyrir framtíðina. Aðeins þannig verða alvöru framfarir að veruleika. Það er verið að gera hér og er það vel. Frábært. Næsta rökrétta skrefið í vegferð okkar hér, er að veita fjármunum í alvöru markaðsátak til þess að opna þessa nýju fluggátt.

Við þurfum jafnframt að muna að þetta hreiður er bara eitt púsl í miklu stærri mynd. Við þurfum að halda áfram að byggja upp innviði og atvinnulíf til framtíðar á sjálfbæran hátt. Þar spila stjórnvöld lykilhlutverk, við að horfa á heildarmyndina, setja skynsamlega stefnu fyrir allt Ísland og hafa dug og þor til að byggja hreiður um allt land, Íslandi öllu til heilla.“

Formaður bæjarráðs: „Fljótvirkasta byggðaaðgerðin“

Myndasyrpa frá fyrstu skóflustungunni

Ný flugstöð – fyrsta skóflustungan