Fara í efni
Fréttir

Fallorka með þrjár nýjar hleðslustöðvar

Tvær hleðslustöðva Fallorku, við Ráðhús Akureyrar.

Fallorka opnaði nýlega þrjár hleðslustöðvar fyrir bifreiðar. Stöðvar fyrirtæksins á Akureyri eru þar með orðanar fjórar og því er hægt að hlaða átta bíla í einu.

Stöðvarnar eru 2x22 kW og þær nýju hinar fyrstu sem Fallorka opnar með greiðslulausn Ísorku. Til að nýta stöðvarnar þarf annaðhvort að greiða með appi Ísorku í snjallsíma eða greiðslulykli þeirra – hér eru ítarlegar upplýsingar um hleðslulykilinn og appið. Þess má geta að Fallorka býður 50% kynningarafslátt á stöðvunum í september

Verkefnið er hluti af styrkúthlutun Orkusjóðs og er samstarfsverkefni; Fallorku, Vistorku, Norðurorku og Akureyrarbæjar. Rafeyri sá um uppsetningu og tengingar á stöðvunum. Um er að ræða fjórar stöðvar þar sem samtals hægt er að hlaða átta bíla samtímis, sem fyrr segir. Tvær stöðvar eru við Ráðhúsið, ein við Sundlaug Akureyrar og ein við Amtsbókasafnið. Fallorka hefur í hyggju að reisa fleiri stöðvar á starfssvæði sínu á næstu misserum.

Mikil aukning hefur verið á fjölda rafbíla á Íslandi undanfarin misseri og eru þessar hleðslustöðvar kærkomin viðbót við hleðslustöðvaflóru bæjarins. Auk þess sem þær munu nýtast vel fyrir þá ferðamenn sem hingað sækja á rafbílum, segir í tilkynningu á vef Vistorku, félags í eigu Norðurorku sem stofnað var 2015 í því skyni að stuðla að framleiðslu umhverfisvæns eldsneytis með sjálfbærri nýtingu hráefnis sem fellur til á Eyjafjarðarsvæðinu.

Hér er listi yfir allar hleðslustöðvar á Akureyri og þær sem eru væntanlegar.

Hér má nálgast kort Orkustofnunar af hleðslustöðvum á Íslandi.