Fara í efni
Menning

Þrítug Léttsveit syngur í Akureyrarkirkju

Kvennakórinn Léttsveit Reykjavíkur ásamt stjórnandanum, Gísla Magna.

Kvennakórinn Léttsveit Reykjavíkur heldur tónleika í Akureyrarkirkju í kvöld, fimmtudagskvöld, kl 20.00. Kórinn fagnar 30 ára afmæli á þessu ári og heldur af því tilefni þrenna tónleika, í Reykjavík, á Akureyri og á Raufarhöfn.

„Það er ekki á hverjum degi sem full flugvél af söngkonum flýgur norður yfir heiðar til að gleðja Norðlendinga,“ segir Akureyringurinn Margrét Þorvaldsdóttir við Akureyri.net, en hún er ein 100 kvenna sem syngur með kórnum.

Frá Akureyrar heldur hópurinn til Húsavíkur þaðan sem gert verður út til Flateyjar og til Raufarhafnar. „Við ætlum að dvelja á Raufarhöfn á laugardaginn, taka lagið upp við Heimskautsgerðið og inni í lýsistönkunum sem verið er að breyta í menningarmiðstöð. Kórinn endar svo daginn á tónleikum í félagsheimilinu þar.“

Margrét Þorvaldsdóttir hefur sungið með Léttsveitinni Kvennakór Reykjavíkur í 26 ára.

Einhverjir muna án efa eftir Margréti sem skíðakonu á árum áður; þær voru gjarnan nefndar fjórar í einu á sínum tíma, Guðrún Frímannsdóttir og „Möggurnar“ þrjár – Margrét Baldvinsdóttir, Margrét Vilhelmsdóttir og Margrét Þorvaldsdóttir.

Þess má líka geta til gamans að móðir Margrétar, Guðrún Margrét Kristjánsdóttir, hefur áratugum saman sungið í kórum á Akureyri og syngur enn, nú með Í fínu formi, kór eldri borgara á Akureyri.

Kvennakórinn Léttsveit Reykjavíkur er skipaður 100 konum sem fyrr segir; þar er á ýmsum aldri, að sögn Margrétar, og úr ýmsum kimum þjóðfélagsins, „svo segja mætti að hópurinn gæti að mestu verið sjálfbært samfélag með kennara, hjúkrunarfræðinga, lækni, sálfræðinga, lögfræðing, grafískan hönnuð, leikara, talmeinafræðing, bókara, listrænar handverkskonur og margar fleiri!“

Kórinn hefur ferðast víða, bæði innanlands og erlendis en á afmælisárinu var ákveðið að íbúar heimalandsins fengju að njóta þess sem kórinn hefur fram að færa, segir Margrét. Léttsveitin einbeitir sér að mestu að tónlist í léttum stíl, að hennar sögn. „Íslenskar og erlendar dægurperlur eftir höfunda eins og Bubba Mortens, Magnús Eiríksson, Gunnar Þórðarson, Joni Mitchell, U2, Eurythmiccs eru á boðstólum þetta vorið,“ segir Margrét. 

Tónleikarnir í kvöld hefjst kl. 20.00 sem fyrr segir. Miðasala verður við innganginn, miðinn kostar 3.000 kr. en eldri borgarar og félagar í kórum á Norðurlandi fá afslatt - fyrir þá kostar 2.500 kr.

Stjórnandi kórsins er Gísli Magna og sér hann um að útsetja langflest lögin sem kórinn flytur. Með í för verður píanóleikarinn Arnhildur Valgarðsdóttir.