Fara í efni
Fréttir

Þriggja ára samningur gerður við Grófina

Inga María Ellertsdóttir, formaður Grófarinnar, Pálína Sigrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Grófarinnar og Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra skrifa undir samninginn.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur gert langtímasamning við Grófina á Akureyri, sem vinnur að fræðslu og forvörnum á sviði geðraskana, í þeim tilgangi að styðja við og efla starfsemi félagsins gagnvart þeim einstaklingum sem glíma við geðraskanir og aðstandendur þeirra. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Heildarupphæð samningsins, sem er til þriggja ára og lengsti samningur sem gerður hefur verið við samtökin, er 45 milljónir króna. Fyrri samningar hafa verið gerðir til eins árs.

Markmiðið með samningum er að styrkja starfsemi Grófarinnar og skjóta styrkari stoðum undir starfsemina. Grófin vinnur fjölbreytt starf og mun samningurinn gera samtökunum kleift að efla starfsemina og standa straum af kostnaði við fjölbreytt verkefni á borð við:

  • Skapa tækifæri fyrir þá sem glíma við geðraskanir að vinna í sínum bata á eigin forsendum og eigin ábyrgð í samræmi við hugmyndafræði valdeflingar,
  • Efla virkni fólks sem glímir við geðraskanir í daglegu lífi,
  • Standa fyrir hópastarfi fyrir notendur og aðstandendur,
  • Standa fyrir fræðslu fyrir notendur og aðstandendur,
  • Vinna að fræðslu og forvörnum í samfélaginu til að auka skilning og draga úr fordómum gagnvart þeim sem glíma við geðraskanir.

Grófin geðrækt er gjaldfrjálst úrræði fyrir 18 ára og eldri, á öllum stigum bataferlisins, sem vilja auka virkni, komast í góðan félagsskap og stunda sjálfsvinnu á jafningjagrundvelli. Markmið Grófarinnar er meðal annars að skapa tækifæri fyrir þá sem glíma við geðraskanir til að vinna í sínum bata á eigin forsendum og á eigin ábyrgð, sem og að skapa vettvang fyrir alla þá sem vilja vinna að geðverndarmálum á jafningjagrunni, hvort sem þeir eru notendur geðheilbrigðisþjónustunnar, fagaðilar, aðstandendur eða einfaldlega áhugafólk um framfarir í geðheilbrigðismálum.

„Það er einstakt gleðiefni fyrir Grófina Geðrækt að fá nú í fyrsta sinn samning til þriggja ára við félagsmálaráðuneytið. Slíkur samningur gerir okkur kleift að hugsa lengra fram í tímann, efla starfið og vera til staðar í samfélaginu okkar og fyrir það erum við þakklát. Samningurinn markar tímamót og stuðlar jafnframt að jafnvægi milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins hvað varðar aðgengi að opnum, gjaldfrjálsum og batamiðuðum þjónustuúrræðum á geðheilbrigðissviði,“ er haft eftir Pálínu Sigrúnu Halldórsdóttur, framkvæmdastjóra Grófarinnar, í tilkynningunni.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra, segir: „Grófin hefur unnið afskaplega mikilvægt starf fyrir einstaklinga sem glíma við geðraskanir og aðstandendur þeirra. Ég hef fengið að kynnast starfinu nokkuð vel undanfarin ár og samtökin hafa staðið að mikilvægri samfélagfræðslu og forvörnum sem hafa aukið skilning og minnkað fordóma gagnvart þeim einstaklingum sem glíma við geðraskanir. Þessi samningur gerir samtökunum kleift að efla starfið enn frekar og skjóta styrkari stoðum undir starfsemina.“