Fara í efni
Íþróttir

Þórsarar upp í þriðja sæti eftir sigur á Fylki

Einar Freyr Halldórsson skoraði í fyrsta sinn í deildarleik og markið reyndist afar mikilvægt. Mynd: Ármann Hinrik

Þórsarar unnu Fylkismenn 2:1 á útivelli í gærkvöldi og fóru upp í þriðja sæti Lengjudeildarinnar, næst efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Einar Freyr Halldórsson gerði sigurmarkið þegar sex mínútur voru eftir með hnitmiðuðu skoti utan vítateigs; fyrsta mark þessa bráðefnilega 16 ára miðjumanns í deildarleik reyndist heldur betur dýrmætt.

Heimamenn náðu forystu eftir tæpan stundarfjórðung þegar Eyþór Aron Wöhler skoraði úr vítaspyrnu en Þórsarar jöfnuðu nokkrum mínútum síðar. Þór fékk horn eftir að Ólafur markvörður varði skot Einars Freys úr dauðafæri, Fylkismönnum tókst ekki að koma boltanum frá eftir hornspyrnuna og bakvörðurinn Juan Guardia Hermida, sem lék á ný eftir nokkra vikna fjarveru vegna meiðsla, skoraði af stuttu færi.

Þórsarar voru betra liðið í fyrri hálfleik en í töluverðu basli í seinni hálfleik, lið Fylkis var meira með boltann og var mun hættulegra en þegar upp er staðið skiptir það ekki alltaf máli. Þórsarar fögnuðu afar mikilvægum sigri í toppbaráttunni og eru nú fjórum stigum á eftir toppliði Njarðvíkur og þremur á eftir ÍR þegar sex leikir eru eftir. Þór á eftir að mæta báðum liðum, Njarðvík heima og ÍR úti.

Tveir lykilmanna Þórs í sumar voru illa fjarri góðu gamni, Ibrahima Balde var veikur og Aron Ingi Magnússon glímir við smávægileg meiðsli. Hermida var hins vegar með á ný eins og áður var getið og Þórsarar endurheimtu einnig framherjana Ingimar Arnar Kristjánsson, sem hafði verið frá vegna meiðsla síðan í lok maí, og Fannar Daða Malmquist Gíslason sem kom við sögu í gær, í fyrsta skipti í sumar.

Daninn Christian „Greko“ Jakobsen fór meiddur af velli eftir aðeins 10 mínútur, Ingimar Arnar leysti hann af hólmi en var skipt út aftur þegar 20 mín. voru eftir. Fannar Daði lék síðustu 10 mínúturnar.

Leikskýrslan

Staðan í deildinni

 

Leikirnir sem Þór á eftir í deildinni: 

Miðvikudag 13. ágúst
Völsungur - Þór

Sunnudag 17. ágúst
ÍR - Þór

Laugardag 23. ágúst
Þór - Njarðvík

Laugardag 30. ágúst
Selfoss - Þór

Laugardag 6. september
Þór - Fjölnir

Laugardag 13. september
Þróttur R - Þór