Fara í efni
Íþróttir

Þórsarar slegnir út úr bikarkeppninni

Bjarni Guðjón Brynjólfsson, sá stórefnilegi leikmaður, lék seinni hálfleikinn í kvöld og komst næst því að skora; skot hans lenti í stöng. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar duttu í kvöld út úr bikarkeppninni í knattspyrnu, Mjólkurbikarkeppninni, þegar þeir töpuðu 2:0 fyrir liði Dalvíkur/Reynis á Dalvíkurvelli.

Úrslitin eru Þórsurum mikil vonbrigði og þau verða að teljast óvænt því Dalvíkingar/Reynismenn leika í fjórðu efstu deild Íslandsmótsins, sem heitir raunar 3. deild, en Þórsarar í þeirri næst efstu, Lengjudeildinni. Sigurinn var hins vegar sanngjarn og lið Dalvíkur/Reynis er komið í 16 liða úrslit bikarkeppninnar.

Þorlákur þjálfari Þórs gerði nokkrar breytingar á byrjunarliðinu frá síðasta leik og sú hersveit hans sem lék fyrri hálfleikinn átti í erfiðleikum gegn heimamönnum sem börðust eins og ljón, staðráðnir í að sýna stóra frænda í tvo heimana. 

Fyrra mark leiksins kom eftir tæpan hálftíma og var slysalegt. Einn heimamanna átti sakleysislega fyrirgjöf og Auðunn Ingi, sem lék í markinu í dag, hefði líklega gripið boltann auðveldlega hefði hann ekki farið í Elmar Þór og breytt um stefnu. Elmar reyndi að spyrna frá en var óheppinn.

Jóhann Örn Sigurjónsson kom Dalvík/Reyni í 2:0 þegar 10 mín. voru eftir þegar hann kom boltanum yfir marklínuna af nokkurra sentimetra færi eftir hornspyrnu.

Lið Dalvíkur/Reynis er í efsta sæti 3. deildar Íslandsmótsins, hefur unnið þrjá fyrstu leikina, og er nú komið í 16 liða úrslit bikarkeppninnar.

Þórsarar hefðu vissulega getað skorað en léku ekki vel og sköpuðu sjaldan mikla hættu við mark heimamanna. Bjarni Guðjón Brynjólfsson , sem spilaði seinni hálfleikinn, komst næst því að skora en skaut í stöng þegar 20 mínútur voru eftir. Seinni hálfleikurinn var betri en sá fyrri af hálfu Þórsara, þeir voru miklu meira með  boltann en það skilaði engu.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.