Fara í efni
Íþróttir

Þórsarar fóru illa með unga Stjörnustráka

Egill Orri Arnarsson fagnar eftir að hann kom Þór í 4:0 í dag. Þetta var fyrsta mark þessa geysilega efnilega leikmanns fyrir meistaraflokk. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar höfðu mikla yfirburði gegn Stjörnunni í Boganum í dag, í Lengjubikarkeppninni í knattspyrnu. Leikurinn endaði 5:1 en þess ber að geta að Garðbæingar tefldu fram mjög ungu liði að þessu sinni, strákum úr 2. aldursflokki.

Það var framherjinn Rafael Alexandre Romao Victor sem náði forystu fyrir Þór á 17. mín. og reyndist það eina mark fyrri hálfleiks.

Heimamenn voru mun betri eins og vænta mátti en annað markið kom ekki fyrr en 20 mín. voru eftir. Rafael Victor var þá aftur á ferðinni, skoraði af stuttu færi eftir darraðardans í teignum. Þremur mín. síðar gerði Ingimar Arnar Kristjánsson þriðja mark Þórs með skoti frá vítateig, Egill Orri Arnarsson gerði það fjórða af stuttu færi og Aron Ingi Magnússon fimmta markið með laglegu skoti rétt utan vítateigs þegar komið var í uppbótartíma.

Elvar Máni Guðmundsson lagaði stöðuna fyrir gestina þegar hann skoraði með síðustu spyrnu leiksins.

Þórsarar hafa þar með unnið tvo fyrstu leikina í Lengjubikarkeppninni og eru með markatöluna 10:2.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

Spurður hvers vegna Stjarnan mætti til leiks jafn ungt lið og raun ber vitni sagði þjálfarinn að meistaraflokkur væri nýkominn úr æfingaferð erlendis frá og hefði fengið frí í nokkra daga.