Fara í efni
Íþróttir

Þórsarar fengu tvö stig á Selfossi

Arnar Þór Fylkisson lék vel í marki Þórs á Selfossi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarar gerðu góða ferð á Selfoss um helgina þar sem þeir sigruðu ungmennalið heimamanna 25:24 í næst efstu deild Íslandsmótsins í handbolta, Grill 66 deildinni.

Þórsliðið lék vel í fyrri hálfleik og hafði fimm marka forskot þegar honum lauk, 17:12. Heimamönnum óx mjög ásmegin í seinni hálfleik og minnkuðu muninn jafnt og þétt en það skipti sköpum fyrir Þór að Arnar Þór Fylkisson var í essinu sínu í markinu. Hann varð frábærlega og var maðurinn á bak við sigurinn.

Arnór Þorri Þorsteinsson gerði 7 mörk í leiknum, Arnþór Gylfi Finnsson, Jóhann Einarsson og Tomislav Jagurinovski gerðu 5 mörk hver og Halldór Yngvi Jónsson 3. Tomislav var með á ný eftir tveggja leikja fjarvera vegna meiðsla.

Aðdragandi þessa leiks verður minnistæður, segir á Facebook síðu handboltaliðs Þórs:

  • Á laugardaginn höfðu reynsluboltarnir hjá SBA-Norðurleið samband við Þórsara og tilkynntu að vegna veðurútlits litist þeim ekkert á að ferðast snemma á sunnudegi (leikdegi) suður á Selfoss. Leikmönnum og þjálfara var því smalað saman héðan og þaðan og lagt af stað í langferðabíl. „Sem betur fer fannst hótel fyrir hópinn með svo stuttum fyrirvara.“
  • Leikmenn ætluðu að vera á Glerártorgi á laugardaginn „að selja síðustu happdrættismiðana (það eru miðar eftir og um að gera fyrir ykkur að styrkja liðið) og einhverjir að vera í heimkeyrslu á miðum. Þarna kom það sér loksins vel að eiga slatta af leikmönnum á meiðsla lista og þeir gerðu sitt að selja miða.“
  • Síðan segir reyndar að óþarflega margir séu á meiðslalistanum þessa dagana: Viðar Ernir Reimarsson séri sig á æfingu í byrjun viku  – Aron Hólm Kristjánsson hefur ekkert náð að æfa eða spila síðan 9. okt – Hilmir Kristjánsson meiddist á undirbúnings tímabilinu – Daníel Orri Bjarkason  meiddist um miðjan okt – Heimir Pálsson er byrjaður að æfa eftir krossbandsslit síðasta vetur!
  • Þá segir á síðunni að  Sigurður Ringsted Sigurðsson, 17 ára, var í fyrsta skipti á skýrslu í meistarflokksleik. „Siggi er leikmaður 3. flokks og þar er enn einn efnilegur leikmaður okkar Þórsara á ferð.“