Fara í efni
Mannlíf

Þorlákur er eini dýrlingur Íslendinga

Fróðleiksmoli frá Minjasafninu á Akureyri

23. desember – Þorláksmessa að vetri

23. desember er andlátsdagur Þorláks Þórhallssonar Skálholtsbiskups. Hann fæddist 1133 en lést sextugur að aldri. Þorlákur var tekinn í helgra manna tölu á alþingi 1198 og ári síðar var dánardagur hans lýstur helgur sem Þorláksmessa en aldir liðu þar til páfi útnefndi Þorlák verndardýrling Íslands árið 1984. Þorlákur er eini dýrlingur Íslendinga.

Þorláksmessa er einnig að sumri 20. júlí sem er dagurinn sem bein hans voru grafin upp og skrínlögð 1198 en það sumar heimilaði alþingi að hægt væri að heita á Þorlák. Árið 1237 var Þorláksmessa á sumri eða hin fyrri lögfest.

Á Þorláksmessu að vetri hefur löngum tíðkast að hafa fiskmeti á borðum. Hvort það voru leifar af katólskri jólaföstu eða einfaldlega ómerkilegur hversdagsmatur rétt fyrir stórhátíðina er óvíst. Jafn óvíst er hvort Þorlákur helgi hafi borðað kæsta skötu sem hefur breiðst út um allt land frá Vestfirðingum á 20. öld.

Haraldur Þór Egilsson er safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri. Fróðleiksmoli frá Minjasafninu birtist á Akureyri.net á hverjum degi til jóla

Þorlákur helgi Þórhallsson Skálholtsbiskup. Myndin er tekin í Landakotskirkju.