Fara í efni
Íþróttir

Þór/KA mætir Breiðabliki í Boganum í dag

Sandra María fagnar marki sínu gegn Keflavík í annari umferð. Hún er markahæst í deildinni sem stendur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA fær Breiðablik í heimsókn í 4. umferð Bestu deildar kvenna, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu í dag.

Leikurinn fer fram í Boganum. Upprunalega átti leikurinn að vera spilaður á Þórsvelli en eftir að fulltrúi frá KSÍ skoðaði vallaraðstæður í dag var ákveðið að færa leikinn inn. Tveggja stiga frost og snjókoma er á Akureyri í dag.

Bæði lið eru með 6 stig fyrir leikinn. Breiðablik er í þriðja sæti deildarinnar, einu sæti fyrir ofan Þór/KA þar sem Blikar eru með betri markatölu.

Í seinustu umferð gerði Þór/KA liðið góða ferð til Vestmannaeyja og vann 1:0 sigur þar sem Sandra María Jessen skoraði eina mark leiksins. Sandra hefur skorað í öllum leikjum liðsins í deildinni hingað til.

Breiðablik vann 6:0 sigur á Keflavík í síðustu umferð og mæta því norður fullar sjálfstrausts. Þegar þessi lið mættust í deildinni í fyrra fóru Blikar með sigur af hólmi í báðum leikjum, 4:1 á Kópavogsvelli og 4:0 á Þórsvelli.

Leikurinn hefst 18:00 og er sýndur á Stöð2Sport