Fara í efni
Íþróttir

Þór velti 300 milljónum – 21 milljón í hagnað

Íþróttasvæði Þórs í Glerárhverfi. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.

Íþróttafélagið Þór hagnaðist um tæpa 21 milljón króna á síðasta rekstrarári og velta félagsins í heild var liðlega 300 milljónir króna. Þetta kom fram á aðalfundi félagsins í gær.

„Rekstur Íþróttafélagsins Þórs gekk vel miðað við aðstæður árið 2021. Covid setti strik í reksturinn hjá aðalstjórn en þó sérstaklega hjá deildum félagsins sem gátu ekki haldið viðburði, mót og á löngum köflum ekki tekið við áhorfendum,“ segir í vef á heimasíðu Þórs.

Þar segir: „Hagnaður Íþróttafélagsins Þórs á samstæðunni á árinu 2021 nam kr. 20.850.053. Samkvæmt efnahagsreikningi nema eignir félagsins kr. 180.819.783, bókfært eigið fé í árslok er kr. 148.123.550 og er eiginfjárhlutfall félagsins 82%.

Á þessum tölum sést að reksturinn er traustur. Félagið er samt sem áður enn að vinna í eftirstöðvum Covid og því fjárhagslega höggi sem faraldurinn olli. Margir styrktarsamningar eru í dag bara brot af því sem þeir voru fyrir Covid og sumir þeirra hafa alveg dottið út. Árið 2022 fer í að koma rekstrinum á þann stað sem við viljum sjá hann.“

Þóra Pétursdóttir var kjörin formaður Þórs eins og Akureyri.net sagði frá í gærkvöldi. Hún tekur við af Inga Björnssyni sem var formaður í fjögur ár.

Úr aðalstjórn gengu, auk Inga, þau Elma Eysteinsdóttir, Kristinn Ingólfsson, Brynja Sigurðardóttir og Helga Lyngdal. Ný í stjórn eru Eva Björk Halldórsdóttir, Ingi Steinar Ellertsson og Nói Björnsson og nýkjörnir varamenn eru Ragnar Níels Steinsson og Jakobína Hjörvarsdóttir, sem einnig er fulltrúi unga fólksins í stjórninni. 

Aðalstjórn Þórs ásamt framkvæmdastjóra eftir fundinn í gær. Frá vinstri: Unnsteinn Jónsson, Eva Björk Halldórsdóttir, Ragnar Níels Steinsson, Íris Ragnarsdóttir, Nói Björnsson, Þóra Pétursdóttir, Þorgils Sævarsson, Jakobína Hjörvarsdóttir, Ingi Steinar Ellertsson og Reimar Helgason, framkvæmdastjóri félagsins.