Þór Íslandsmeistari 2. flokks í knattspyrnu

Þórsarar urðu Íslandsmeistarar 2. aldursflokks í knattspyrnu í dag þegar sigruðu lið Breiðabliks 3:1 í Boganum.
Varnarjaxlinn Ásbjörn Líndal Arnarsson kom Þór í 1:0 á 23. mínútu með skalla eftir hornspyrnu og hann endurtók leikinn fimm mínútum síðar; skallaði boltann aftur í markið eftir horn og staðan orðin 2:0. Gunnleifur Orri Gunnleifsson minnkaði muninn fyrir gestina með marki aðeins fáeinum augnablikum eftir að Ásbjörn gerði seinna markið og staðan var 2:1 í hálfleik.
Það var svo Atli Þór Sindrason sem innsiglaði sigur í leiknum og tryggði Þórsurum þar með endanlega Íslandsmeistaratitilinn þegar hann skoraði þriðja markið skömmu fyrir leikslok. Þá kættust langflestir í Boganum og ekki minnkaði gleðin þegar Pétur Orri Arnarson og Ásbjörn Líndal Arnarsson tóku við bikarnum.
Fjórir leikir eru eftir af mótinu, þetta var hins vegar lokaleikur Þórsara og önnur lið geta ekki lengur náð þeim að stigum.
ÍSLANDSMEISTARARNIR
Aftari röð frá vinstri: Ármann Pétur Ævarsson þjálfari, Aðalgeir Axelsson þjálfari, Gestur Aron Sörensson, Kári Jónsson, Atli Þór Sindrason, Pétur Orri Arnarson, Mikael Örn Reynisson, Haukur Leo Þórðarson, Peter Ingi Helgason, Dagbjartur Búi Davíðsson, Víðir Jökull Valdimarsson, Arnar Geir Halldórsson þjálfari, Franko Lalic markmannsþjálfari. Fremri röð frá vinstri: Tómas Bjarni Baldursson, Sverrir Páll Ingason, Ólíver Sesar Bjarnason, Lucas Vieira Thomas, Kristófer Kató Friðriksson, Magnús Máni Sigursteinsson, Kjartan Ingi Friðriksson, Kristinn Örn Ægisson, Ásbjörn Líndal Arnarsson.
- Algengt er í 2. aldursflokki, þeim næst elsta á Íslandsmótinu á eftir meistaraflokki, að fleiri en eitt félag tefli fram sameiginlegu liði. Öll 10 sem léku í 3. og síðustu lotu A-deildar 2. flokks eru til dæmis þannig saman sett.
- Til að gæta fyllstu nákvæmni er rétt að taka fram að Íslandsmeistararnir eru sameiginlegt lið Þórs, Völsungs frá Húsavík, Magna frá Grenivík og sameiginlegs liðs Tindastóls frá Sauðárkróki, Hvatar frá Blönduósi og Kormáks frá Hvammstanga. Í dag voru allir leikmenn meistaraliðsins Þórsarar, fyrir utan tvo stráka úr Völsungi – sem eru í grænum treyjum á liðsmyndinni. Fyrr í sumar tóku strákar frá hinum félögunum þátt í leikjum liðsins; frá Magna og sameiginlegu liði Tindastóls, Hvatar og Kormáks.
- Andstæðingur dagsins var sameiginlegt lið Breiðabliks, Augnabliks og Smára.