Fara í efni
Íþróttir

Þór hársbreidd frá sigri á Aftureldingu

Vörn Þórs var mjög góð á löngum köflum í gær; hér náðu Þórsarar að verja skot Ævars Smára Gunnarssonar í fyrri hálfleik. Myndir: Ármann Hinrik

Þórsarar voru hársbreidd frá því að næla í bæði stigin þegar Afturelding kom í heimsókn í gærkvöldi í Olísdeild karla, efstu deild Íslandsmótsins í handbolta. Þeir urðu þó að gera sér annað stigið að góðu því liðin skildu jöfn, 23:23, í æsispennandi og skemmtilegum leik. Þetta var lokaleikur 10. umferðar.

Þór fékk gullið tækifæri til að komast tveimur mörkum yfir þegar nákvæmlega ein mínúta var eftir. Tveir varnarmenn gestanna reyndu hvað þeir gátu til þess að stöðva „línutröllið“ Kára Kristján Kristjánsson en niðurstaðan var sú að Þór fékk vítakast. Staðan var 23:22, Oddur Gretarsson steig fram og gat komið heimamönnum í kjörstöðu en Einar Baldvin Baldvinsson, markvörður Aftureldingar, kórónaði mjög góða frammistöðu með því að verja vítið.

Ihor Kopyshynskyi, sá frábæri hornamaður, fyrrverandi leikmaður Þórs, jafnaði úr víti þegar tæp hálf mínúta var eftir og Þórsarar fengu því lokasóknina. Birkeland þjálfari Þórs tók leikhlé þegar átta sekúndur lifðu leiks og eftir að lögð voru á ráðin náði Hafþór Már Vignisson skoti á markið en áðurnefndur Einar Baldvin varði og liðin skiptu stigunum tveimur því á milli sín.

Þórður Tandri Ágústsson er frábær línumaður og magnaður varnarmaður að auki. Hér gerir hann eitt fimm marka sinna í gær.

Gestirnir voru án efa taldir sigurstranglegri í gærkvöldi því þeir voru í öðru sæti með 14 stig og gátu með sigri komist á toppinn, upp að hlið Hauka, en Þórsarar voru í 10. sæti með sex stig. Þórsstrákarnir sýndu hins vegar í gær, eins og stundum áður í vetur, að þeir geta staðist hvaða liði sem er snúning. Þurfa í sjálfu sér ekki að óttast neinn andstæðing, ef þeir sýna sitt rétta andlit.

Lítið var skorað í fyrri hálfleik. Fyrsta markið kom ekki fyrr en eftir fjórar og hálfa mínútu þegar Þórsarinn Þórður Tandri Ágústsson skoraði og staðan í hálfleik var 10:8, gestunum í vil.

Gestirnir byrjuðu betur í seinni hálfleik, náðu fljótlega þriggja marka forystu en Þórsarar jöfnuðu, 17:17, þegar Brynjar Hólm þrumaði boltanum í markið. Leikurinn var í járnum það sem eftir var en Þórsarar alltaf skrefi á undan þar til Ihor, sem áður var getið, jafnaði 22:22 þegar sex mínútur voru eftir.

Það var hornamaðurinn Halldór Kristinn Harðarson sem gerði síðasta mark Þórs – breytti stöðunni í 23:22 þegar rúmar fimm mínútur voru eftir og hart var barist á lokasprettinum. Síðustu augnablikunum er áður lýst.

Vörn Þórs var mjög góð, einkum í seinni hálfleik og hið magnaða sóknarlið úr Mosfellsbæ átti þá oft í stökustu vandræðum.

Þórsarar gerðu margt vel í gær. Sóknarleikurinn prýðilegur á köflum, en þeir tóku mikla áhættu; í seinni hálfleik fór Radovanovic markvörður af velli þegar þeir sóttu, 7 gegn 6, og Mosfellingar fengu nokkur gefins mörk fyrir vikið ef svo má segja; köstuðu boltanum yfir endilangan völlinn í tómt mark.

Gaman var að sjá Hafþór Má Vignisson aftur; hann hefur verið frá vegna meiðsla í rúma tvo mánuði og þótt hann sé eðlilega ekki í mikilli leikæfingu er gríðarlega mikilvægt fyrir Þórsara að endurheimta Hafþór.

Þór er nú í 10. sæti með sjö stig en Afturelding í 2. sæti með 15. 

Mörk Þórs: Þórður Tandri Ágústsson 5, Brynjar Hólm Grétarsson 4, Halldór Kristinn Harðarson 3, Oddur Gretarsson 3 (þar af 1 víti), Hákon Ingi Halldórsson 3, Arnór Þorri Þorsteinsson 2, Hafþór Már Vignisson 1, Igor Chiseliov 1, Kári Kristján Kristjánsson 1.
Varin skot: Nikola Radovanovic 9 (þar af 1 víti) – 29%.

Mörk Þórs: Ihor Kopyshynskyi 6 (þar af 2 víti), Árni Bragi Eyjólfsson 4, Oscar Sven Leithoff Lykke 3 (þar af 1 víti), Kristján Ottó Hjálmsson 3, Stefán Magni Hjartarson 3, Sveinur Olafsson 2, Einar Baldvin Baldvinsson 1, Þorvaldur Tryggvason 1.
Varin skot: Einar Baldvin Baldvinsson 14 (þar af 2 víti) – 37,8%.

Öll tölfræðin frá HB Statz

Staðan deildinni

  • Næstu leikir í deildinni fara fram í komandi viku og 11. umferðin er sannarlega tilhlökkunarefni fyrir Akureyringa. KA og Þór mætast nefnilega í KA-heimilinu á fimmtudagskvöldið. Loksins alvöru bæjarslagur!

Hafþór Már Vignisson lék með Þór á ný í fyrsta skipti eftir rúmlega tveggja mánaða fjarvegu vegna meiðsla sem mun reynast afar mikilvægt.

Hákon Ingi Halldórsson, sem sneri heim í Þór í sumar eftir nám erlendis, hefur sýnt skemmtileg tilþrif í hægra horninu. Hann gerði þrjú mörk í gær.

Halldór Kristinn Harðarson átti hressilega innkomu í gærkvöldi og gerði þrjú mörk úr vinstra horninu.