Fara í efni
Fréttir

Gladdist mjög eftir að Mánahlíð var mokuð

Reynir Bjarnar Eiríksson glaður í bragði eftir að Mánahlíðin var skafin og snjóruðningurinn settur „…
Reynir Bjarnar Eiríksson glaður í bragði eftir að Mánahlíðin var skafin og snjóruðningurinn settur „réttu“ megin. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Reynir Bjarnar Eiríksson, íbúi við Mánahlíð, sá ástæðu til þess að gleðjast þegar gatan var mokuð eftir snjókomuna á dögunum. Ruðningurinn var nefnilega „réttu megin“ að þessu sinni, en það segir hann ekki árlegt brauð.

„Síðustu 16 ár hef ég hringt til bæjarins á hverju hausti og beðið um að gatan yrði mokuð þannig að ruðningurinn yrði sunnan megin. Ekki vegna þess að ég bý norðan við götuna, heldur vegna þess að ræsin eru að sunnan og gatan hallar því örlítið þangað; stundum hefur þetta verið gert en alltof oft ekki. Nú segi ég takk – og vona að svona verði mokað til frambúðar.“

Reynir segir að þegar vorar losni íbúar mun fyrr en ella við snjóinn sé honum ýtt á réttan á stað. „Mér finnst það sjálfsögð þjónusta við íbúa að beita skynsemi við snjómoksturinn. Maður á ekki að þurfa að benda bænum á hvorum megin ræsin eru. Ég segi það hiklaust að þegar samið er við einhvern um að moka götur ætti að fylgja lýsing á því hvoru megin ræsin eru í götunni og hvar eigi að skilja snjóinn eftir.“

Gífurlegt fannfergi var í bænum síðasta vetur og Reynir tekur sem dæmi að þá hafi snjó ekki tekið almennilega upp í götunni fyrr en tveimur vikum eftir að orðið var autt í nærliggjandi götum. „Íbúar fjögurra húsa við götuna mættu út með skóflur og spaða og freistuðu þess að brjóta ruðningana sem voru orðnir eins og skítugir jöklar; grjótharðir og ljótir. Það var erfitt, ástandið lagaðist en þetta hefði verið óþarft hefði rétt verið staðið að mokstrinum um veturinn.“

Ástandið er ekki gott ef hlánar og frystir á ný, eins og algengt er, því vatn leitar í átt að ræsunum og séu þau hinum megin götunnar verður hún vitanlega flughál þegar frystir. „Þegar mikill klaki myndast er í raun ömurlegt að keyra hér því gatan er í brekku. Ég hef líka bent á þetta út frá umhverfissjónarmiði, ég þori til dæmis ekki annað en vera á nagladekkjum.“

Reynir gleðst einnig yfir því að gatan er sérlega vel hreinsuð að þessu sinni og hann kveðst hafa heyrt þá sögu víðar úr bænum. „Forráðamenn bæjarins töluðu um að minnka snjómokstur í vetur í sparnaðarskyni og þá er einmitt gott að spyrja sig: hvað getum við gert á móti? Hægt að auka ánægju íbúanna, til dæmis með því að lagfæra þetta „litla“ atriði sem ég nefni, og með því að moka vel, eins og nú er gert. Þá er ég viss um að fólk verði ánægt, þótt sjaldnar sé mokað en venjulega.“