Fara í efni
Menning

„Þokkaleg hún þótti mér, þessi ýsa“

Magnús Geir Guðmundsson og kápa nýjustu ljóðabókarinnar, Stökustamps.
Magnús Geir Guðmundsson og kápa nýjustu ljóðabókarinnar, Stökustamps.

Magnús Geir Guðmundsson sendi nýverið frá sér fimmtu ljóðabókina en hann hefur leikið sér af fimi með limruformið á síðustu árum. „Helstu áhrifavaldar þess að ég fór að fást við limruformið voru menn á borð við Björn Þorleifsson og Jónas Árnason,“ segir Magnús við Akureyri.net.

„Ég er borinn og barnfæddur á Akureyri 1966, yngstur sex bræðra, af miklum Þórsaraættum af Eyrinni, en fluttist átta ára gamall í Þorpið. Ég byrjaði ungur að hafa yndi af kveðskap, fyrst fyrir tilstilli mömmu og þá var elsti bróðir hennar sem bjó einnig á Akureyri, duglegur að halda vísnakveðskap að ungum frændanum. Sá var Páll Gunnarsson, lengi yfirkennari við Barnaskóla Akureyrar, en síðustu starfsárin skólastjóri,“ segir Magnús og bætir við: „Í ofanverðum grunnskóla átti svo bekkjarkennarinn þá, Bragi V. Bergmann, sinn þátt í að glæða frekar áhuga minn, en hann var duglegur að fara með vísur fyrir okkur í tímum.“

Magnúst kveðst reyndar ekki hafa byrjað sérstaklega ungur að láta frá sér vísur. „Líklega var það ekki fyrr en ég var 16 ára að ég þorði að fara með þær upphátt.“

Nokkru áður hafði þó annar móðurbróðir, Hörður Gunnarsson, reynst forspár; sagði eitt sinn við móður Magnúsar, Ingibjörgu Gunnarsdóttur, í símtali að þessi yngsti sonur hennar ætti að skrifa. „Sú varð aldeilis raunin með svo margt sem ég hef síðan fengist við á lífsleiðinni því auk kviðlingasmíða af ýmsu tagi var ég í nær heilan áratug, frá 1990 til 1999, sjálfstætt starfandi blaðamaður á Degi og sá þar lengst af um tónlistarskrif.“

Magnús man vel eftir fyrstu stökunni sem hann orti. „Hún varð til eftir að ég hafði þegið matarboð hjá Ísleifi bróður mínum og vildi þakka fyrir mig.

Yfir vil ég aðeins hér,
einu lýsa.
Þokkaleg hún þótti mér,
þessi ýsa.

Með tímanum hafa yrkingarnar og ástundunin ágerst og líkt og með aðrar íþróttir hefur það skilað mér ansi góðri færni á vígvöllum bragfræðinnar – ég hef meðal annars verið svo heppinn að hljóta oftar en einu sinni viðurkenningar fyrir kveðskapinn.“

Stökustampur er fimmta bók Magnúsar á sextán árum: Geiravísur (2004), Limrurokk (2013), Ljóðstafakrans (2016), Limrufjör (2018) og Stökustampur, sem var að koma út.

„Ég hef, með góðra manna og kvenna hjálp við vinnsluna, staðið einn að útgáfunni,“ segir Magnús, en bókin er fáanleg hjá honum í gegnum Fésbók, auk þess sem hún fæst í Pennanum á Akureyri.

Hann kveður svo blaðamann með þessum hringhendu sléttuböndum: 

Herðir tökin vetur víst,
vesæl bökin lemur.
Skerðir mökun sortinn síst,
sæluvökur temur.

Temur vökur sælu síst,
sortinn mökun skerðir.
Lemur bökin vesöl víst,
vetur tökin herðir.