Fara í efni
Fréttir

Þjónustustöð lokað og N1 vill leigja húsið út

Þjónustustöð N1 við Hörgárbraut. Bensíndælurnar verða áfram í notkun en N1 vill leigja út húsið. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Ertu með góða hugmynd að skemmtilegum rekstri en vantar lítið húsnæði á fjölförnum stað? Nú er kannski lag, því hús á óhefðbundinni lóð verður til leigu fljótlega!

Forráðamenn N1 hafa ákveðið að loka þjónustustöðinni við Hörgárbraut frá og með 1. september og hyggjast leigja út húsnæðið; litla húsið þar sem starfsmenn hafa selt viðskiptavinum ýmsan varning í gegnum tíðina auk þess að taka við greiðslu fyrir eldsneyti.

Bensíndælurnar verða áfram á sínum stað og sjálfsafgreiðsla á eldsneyti því í boði, auk þess sem á lóðinni verður áfram rekin þvottastöð N1 og Veganesti verður einnig á sínum stað.

Jón Viðar Stefánsson, forstöðumaður einstaklingssviðs N1, segir við Akureyri.net að tekin hafi verið ákvörðun um að loka þjónustustöðinni á staðnum því húsnæðið þyki ekki henta lengur og starfsmenn flytjist yfir á þjónustöð N1 við Leiruveg.

N1 tilkynnti um fyrirhugaðar breytingar fyrir fáeinum dögum, á samfélagsmiðlum fyrirtækisins, og Jón Viðar segir augljóst að Akureyringum, og raunar fleiri Norðlendingum, þyki vænt um staðinn og sé ekki sama hvaða starfsemi verði í húsinu. „Margir hafa haft samband við okkur, bæði til að forvitnast og með með margvíslegar hugmyndir, mjög fjölbreyttar,“ segir Jón Viðar og vill ekki fara nánar út í þá sálma að sinni. 

Jón Viðar segir að starfsfólk N1 muni kveðja Hörgárbrautina „með stæl“ einhvern tíma í ágúst: „Fríða Dóra, stöðvarstjóri á Akureyri, ætlar að halda kveðjupartý þar sem þjónustustöðin verður kvödd, í bili að minnsta kosti. Allir verða boðnir velkomnir í þá veislu.“

Bensínstöð N1 við Hörgárbraut. Dælurnar verða áfram á sínum stað en N1 vill leigja litla húsið á myndinni undir einhvers konar aðra starfsemi.