Mannlíf
„Þegar Trölli stal jólunum“ í Hofi
06.12.2025 kl. 12:00
Frá Frozen sýningu Steps Dancecenter á síðasta ári.
Listdansskólinn Steps Dancecenter býður bæjarbúum á Akureyri og nágrenni til dans- og leikhússýningar kl. 12.00 og 15.00 á morgun, sunnudaginn 7. desember, þegar nemendur skólans stíga á svið í sýningunni „Þegar Trölli stal jólunum“. Í tilkynningunni segir að sýningin sé fjölskylduvæn og sameini dans, leikræna tjáningu „og heillandi jólastemningu í einu heildstæðu sviðsverki sem höfðar jafnt til barna og fullorðinna“.
„Sýningar Steps Dancecenter hafa ávallt verið metnaðarfull verkefni þar sem allt er lagt í listræna útfærslu, sviðsmynd, búninga og faglegt flæði,“ segir í tilkynningunni. „Skólinn setur árlega upp tvær stórar danssýningar – eina í desember og aðra í maí – og er unnið með fjölbreytt og skapandi þemu á borð við Frozen, Disney, leikstjóraþema og fjölmörg önnur.Sýningarnar eru ætíð vel sóttar og hafa á undanförnum árum laðað að fjölbreyttan hóp gesta, þar á meðal fjölda áhorfenda sem ekki hafa tengsl við skólann. Það endurspeglar mikilvægt hlutverk danslistar við að tengja saman ólíka samfélagshópa og skapa jákvæða, sameiginlega menningarupplifun. Markmið Steps Dancecenter er einmitt að opna dyr danslistarinnar fyrir alla og efla þátttöku samfélagsins í sviðslistum.“