Fara í efni
Mannlíf

„Var alltaf draumurinn, að vera með börn og kindur“

Birgitta Lúðvíksdóttir, bóndi á Möðruvöllum 3 í Hörgársveit. Hér er hún í hjólhýsinu, heimili sínu að heiman í sauðburðinum. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

„Reyndar byrjaði sauðburðurinn ekki of vel, það létu fyrstu fjórar,“ segir Birgitta Lúðvíksdóttir, bóndi á Möðruvöllum 3 í Hörgárdal. Fyrstu fjögur lömbin drápust, sem sagt. „En það má segja að fall sé fararheill, vegna þess að það hefur gengið mjög vel síðan.“

Við sitjum í lítilli, en huggulegri kaffistofu fjárhúsanna við Möðruvelli. Eins og á alvöru sveitakaffistofu er borðið yfirfullt af kexpökkum, sætabrauði og jafnvel köku. Það þarf að hafa orku í búskapinn, ekki síst í sauðburði og öllum þeim vökum sem því tilheyrir. 

Kaffistofan er ekki eina afdrepið fyrir mannfólk í húsunum, en í einu horninu er fínasta hjólhýsi. „Við fengum þetta hjólhýsi gefins,“ segir Birgitta, en hún sefur í hjólhýsinu á meðan sauðburði stendur. „Fyrsta árið okkar með kindur hér á Möðruvöllum bjuggum við á Akureyri ennþá, þá var þetta algjört þarfaþing og ég bókstaflega flutti hingað í sauðburðinum.“

 

„Ég er sveitamanneskja í grunninn, ég ólst upp á Molastöðum í Fljótum,“ segir Birgitta, aðspurð hvað hún hafi verið lengi í búskap. „Þar vorum við með kindur og ég hef alltaf verið hrifin af þeim. Þegar ég var sirka 22 ára, réði ég mig hérna á Möðruvöllum í vinnu. Þá var Þórður Gunnar Sigurjónsson bústjóri hérna og þetta var tilraunabú.“ Eitthvað hefur Þórður verið heillandi við bústjórnina, en þarna kviknaði ástin og hafa Birgitta og Þórður verið saman síðan. „Sambandið okkar hófst hér en við fluttum fljótlega í Stykkishólm. Maðurinn minn var ráðunautur á þeim tíma og við fórum þangað vegna vinnu. Árið 2013 fluttum við svo aftur hingað, þar sem allt byrjaði, eftir að búa um tíma á Akureyri.“ Þórður er upphaflega frá Þóroddsstöðum í Ólafsfirði. 

 

Þórður og Birgitta, bændur á Möðruvöllum 3. Hjónakornin áttu silfurbrúðkaup þann 1. maí síðastliðin. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

„Mest vorum við með 380 kindur um tíma, en bróðir Þórðar og kona hans voru þá með okkur í búskapnum,“ segir Birgitta. „Við fækkum hægt og rólega núna í seinni tíð. Í dag erum við með töluvert færri, en það voru 140 á fóðrum í vetur.“ Birgitta segir að það geti alveg verið erfitt á tímum, að vera sauðfjárbóndi, en það sé bara svo ofboðslega gaman. „Kindur eru bara mitt áhugamál!“

Ég get svo stolið lúrum inn á milli alla nóttina, ef það er lítið að gera í burði næ ég alveg ágætis kríum. Ef kannski þrjár eru að bera, sef ég ekki mikið

Birgitta sér um næturvaktirnar í sauðburðinum, en þar kemur hjólhýsið einmitt sterkt inn. „Ég fer hérna uppeftir um hálf níu. Ef það er ekkert um að vera þegar ég kem, legg ég mig í svona tvo tíma,“ segir Birgitta. „Ég stilli vekjaraklukku og rölti svo fram til að skoða aðstæður. Ég get svo stolið lúrum inn á milli alla nóttina, ef það er lítið að gera í burði næ ég alveg ágætis kríum. Ef kannski þrjár eru að bera, sef ég ekki mikið.“ Birgitta segir að lengst hafi hún sofið samfleytt í fjárhjólhýsinu 43 nætur í röð, þar sem enginn lúr fer yfir tvo tíma. 

„Þegar það er ekki sauðburður, þarf ég mína 8 klukkutíma í svefn og er rosalega kvöldsvæf,“ segir Birgitta. „En þegar sauðburðurinn byrjar hjá mér, er eitthvað adrenalín sem fer í gang. Það skeður eitthvað innra með mér, og ég tek þessa törn.“ Blaðamaður furðar sig á því að Birgitta segist aldrei leggja sig á daginn, þegar aðrir eru í húsunum. „Það kom reyndar einu sinni fyrir um daginn. Einn lítinn lúr, en ég legg mig aldrei á daginn.“ 

Birgitta hjálpar nýfæddum systkinum í rétta kró. Móðirin fylgist róleg með. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Þegar Birgitta segir að kindur séu áhugamálið sitt, meinar hún það. Hún tekur myndir af öllum kindunum sem eru yfir veturinn og geri það á hverju ári. Þessi flotti veggur prýðir fjárhúsið, þar sem hægt að er sjá allar kindurnar. Mynd: úr einkasafni Birgittu.

Sauðburðurinn er uppáhalds tími Birgittu í búskapnum, þrátt fyrir álagið. „Sumarið er líka skemmtilegt, það er gaman að rölta upp í fjall á sumrin og heimsækja kindurnar,“ segir Birgitta. „Áður vorum með þær á Landafjalli við Bægisá, þá var mjög auðvelt að finna þær og þegar við kölluðum, komu þær og þáðu hjá okkur brauð. Nú er aðeins erfiðara að heimsækja þær. Ég sakna þeirra svolítið, þegar þær eru á fjalli, en það er alveg gott að fá svolítið frí líka.“ Birgitta hlakkar svo alltaf til réttanna, fá að sjá lömbin aftur, hvað þau hafa vaxið úr grasi.  

Ég hef alltaf verið mikil barnakerling, og þegar ég bjó á Akureyri hafði ég alltaf þann draum, að geta búið í sveitinni og verið með kindur og börn

„Þetta átti nú að heita hobbí,“ segir Birgitta hlæjandi, aðspurð um hvort að þau hjónin hafi alltaf ætlað sér að verða sauðfjárbændur til frambúðar. „En svo fórum við út í það líka að vera fósturforeldrar, og höfum tekið að okkur börn auk okkar eigin barna, þannig að það er full vinna að vera heima með börn og búskap. Við eigum fimm börn saman, maðurinn minn átti þrjú áður og við eigum tvö saman. Við eigum 10 barnabörn og það er líka komið eitt barnabarnabarn. Síðan erum við núna með þrjú fósturbörn hérna heima sem eru öll á grunnskólaaldri.“

 

Mæður og lömb hafa það huggulegt í haganum fyrir ofan Möðruvelli. Þórður er búinn að skutla til þeim rúllum og nóg er að bíta og brenna. Mynd: Rakel Hinriksdóttir


Þórður er eldri en Birgitta, en í ár verður hann 74 ára. „Hann er nú sennilega með þeim eldri mönnum sem eiga þrjú börn í grunnskóla!“ segir Birgitta hlæjandi. „Ég hef alltaf verið mikil barnakerling, og þegar ég bjó á Akureyri hafði ég alltaf þann draum, að geta búið í sveitinni og verið með kindur og börn. Og það rættist!“ Birgitta segist ekkert vita afhverju hún er svona. „Við hjónin höfum líka bæði svo mikinn áhuga, og erum mjög samrýmd í öllu þessu starfi.“ 

Birgitta og Þórður taka líka að sér stuðningsbörn, en það eru börn sem koma yfir eina og eina helgi. „Allir krakkar sem hafa komið hingað, fá að velja sér kind. Þau fá að eiga hana að nafninu til, sem er mikið sport,“ segir Birgitta að lokum, glöð í bragði. „Og það eru ansi margir sem eiga hjá okkur kind.“

  • Birgitta heldur úti skemmtilegu bloggi, þar sem hægt er að fylgjast með lífinu í sveitinni á Möðruvöllum --> Síða Birgittu