Fara í efni
Mannlíf

Það er kominn Helgi - og Þór og Matti!

Akureyringarnir Þór Freysson og Matthías Stefánsson. Ljósmynd: Mummi Lú.
Akureyringarnir Þór Freysson og Matthías Stefánsson. Ljósmynd: Mummi Lú.

Fátt sameinar þjóðina betur en góður landsleikur í íþróttum en síðustu mánuði má segja að Helgi Björnsson og Reiðmenn vindanna hafi tekið við keflinu. Þættirnir Heima með Helga og Það er komin Helgi í Sjónvarpi Símans hafa notið fádæma vinsælda og sá allra síðasti mun vera á dagskrá í kvöld.

Eins og í mörgum góðum liðum koma Akureyringar við sögu í þáttunum; ekki þó sem fyrirliðar eins og í landsliðunum, Helgi ber vitaskuld þann titil.

Maðurinn með fiðluna, banjóið og kassagítarinn hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli, enda kemur í ljós að þar er á ferð Akureyringurinn Matthías Stefánsson! Aðalmaðurinn á bak við tjöldin er svo Þór Freysson, sem stjórnar útsendingum og er einn framleiðenda þáttanna, ásamt Helga og Símanum. Margir muna Þór sem gítarleikara Bara flokksins, en hann hefur verið áberandi í sjónvarpsbransanum í fjöldamörg ár.

150 plötur!

Matthías er fæddur 1976 og ólst upp á Brekkunni, var efnilegur íþróttamaður en ákvað að helga sig tónlistinni 17 ára gamall og flutti þá suður. „Ég hafði kynnst góðu tónlistarfólki fyrir sunnan og ákvað að flytja til að helga mig tónlist. Það var líklega ekkert rosalega vinsælt þá en ég er hér enn!“ segir hann við Akureyri.net.

Matthías var í upphaflegu útgáfu Reiðmanna vindanna, lék með hljómsveitinni við upptökur á diskum, lék líka um tíma með SSSól og hefur raunar leikið með mjög miklum fjölda tónlistarmanna í gegnum tíðina og til dæmis leikið inn á 150 geisladiska – eða plötur, eins og sumir nefna gripina; með Björk, Sigurrós, Agli Ólafssyni, Páli Rósinkraz, Ríó tríói, Ragga Bjarna, Ellen Kristjánsdóttur, Magna Ásgeirssyni og Björgvin Halldórssyni, svo aðeins nokkrir séu nefndir. Hann var ekki með í fyrstu þáttunum af Heima með Helga, en sló til þegar kallið kom.

Fiðlan stendur mér næst

„Ég byrjaði að læra á fiðlu í Tónlistarskólanum á Akureyri hjá Lilju Hjaltadóttur; ég og Þrúður Gunnarsdóttir vinkona mín vorum fyrstu Suzuki börnin á Íslandi,“ segir Matthías. „Móðurbróðir minn heitinn spilaði á gítar, hlustaði mikið á Eric Clapton, Santana og Blind Faith. Þegar ég var um fermingu sagði hann mér að hætta þessu fiðlusargi; farðu að spila á gítar, drengur! sagði hann og ég gerði það.“

Matthías spilar jöfnum höndum á fiðlu og gítar, auk þess að grípa í banjóið eins og hann hefur gert í þáttunum með Helga, „en ég verð að viðurkenna að fiðlan stendur mér alltaf næst þótt ég spili mjög mikið á gítar líka.“

Efnilegur í íþróttum

Matthías sótti tíma hjá Kristjáni Edelstein gítarleikara áður en hann flutti suður, fór síðan í FÍH-skólann „og hafði vit á því að fara í Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk fiðlunámi.“

Frá því 2002 hefur Matthías alfarið starfað við tónlist og kennir nú á fiðlu í Tónlistarskólanum í Grafarvogi. Auk þess tekur hann þátt í margskonar verkefnum, allt frá jarðarförum til dansleikja eins og hann tekur til orða.

Matthías var efnilegur íþróttamaður á unglingsárum. Hann ólst upp í Kleifargerði og lék með KA í öllum yngri flokkunum. „Ég var á fullu bæði í fótbolta og handbolta og fékk aðeins að spreyta mig í meistaraflokki í handbolta þegar Erlingur Kristjánsson þjálfaði. Svo fór ég í Þór af því ég átti góða kunningja í handboltaliðinu; við Atli Rúnarsson vorum farnir að spila saman tónlist og svo þegar Finnur Jóhannsson kom norður í Þór spiluðum við allar helgar á Dropanum.“

Matthías var valinn í unglingalandslið í fótbolta en þegar hann var á 18. ári ákvað hann engu að síður að segja skilið við íþróttirnar og snúa sér alfarið að tónlistinni. Hann sér ekki eftir því, enda hefur hann lifað af tónlist allar götur síðan.

Hótel mamma!

Foreldrar Matthíasar, Kristín Þuríður Matthíasdóttir og Stefán Friðrik Ingólfsson, bjuggu í Kleifargerðinu allt þar til þau fluttu suður fyrir um að bil hálfu ári. „Ég hef mjög oft spilað fyrir norðan í gegnum árin og undanfarið oft fyrir Menningarfélagið i Hofi og þá gekk maður að herberginu sínu í Kleifargerði vísu. Það var hálf skrýtið að kom norður á síðustu mánuðum til að taka upp kvikmyndatónlist í Hofi og þurfa að gista á hóteli; ekkert kemur í staðinn fyrir hótel mömmu!“

Matthías segir ótrúlega skemmtilegt að taka þátt í ævintýrinu með Helga í sjónvarpinu. „Ég hef spilað með flestu þessu fólki áður, en það hefur verið ótrúlega gaman að spila í þáttunum; það er vel heppnað að fá tvo eða þrjá listamenn í hvern þátt og flytja alls kyns músík. Það hrundi allt í tónlistarbransanum eftir að Covid kom, ekkert var að gera þannig að það var auðvitað mjög heppilegt að komast í þetta – og það hefur auðvitað gengið frábærlega. Helgi er snillingur á þessu sviði, ótrúlega naskur á að skynja hvað virkar. Hann er mjög næmur,“ segir Matthías.

Ætluðum að prófa einn þátt

Þór Freysson tekur í sama streng. „Þættirnir eru orðnir 29 – verða 30 þegar upp verður staðið,“ sagði Þór í vikunni. Þátturinn í kvöld er sem sagt sá 30. síðan farið var af stað með það í huga að prófa að senda út einn þátt!

„Við byrjuðum fyrir einu ári og einni viku með Heima með Helga og hugsuðum okkar að prófa í það eina skipti. Vorum í Hlégarði í Mosfellsbæ en verkefnið vatt strax upp á sig. Viðbrögðin voru ótrúleg og því var ákveðið að halda áfram, við tókum bara einu viku í einu og það endaði í sjö þáttum.“

Þegar „sjónvarpsvetrinum“ lauk sneri fólk sér að öðru en þegar ljóst var að engar útihátíðir yrðu um verslunarmannahelgina, vegna Covid, var ákveðið að gera tvo þætti til viðbótar svo Heima með Helga urðu níu þættir.

„Allir að horfa!“

Þór hefur marga fjöruna sopið í þessu bransa „en ég hef nánast aldrei fengið jafn sterk viðbrögð við neinu eins og þessu, síðan við gerðum Idol-þættina fyrir mörgum árum. Það voru hreinilega allir að horfa á Helga og félaga!“

Eftir að hafa gert þessa Heima með Helga þætti var ákveðið, þegar farið var af stað á ný í haust, að kalla þættina Það er komin Helgi og breyta aðeins útlitinu, „til að undirstrika að þetta væri í raun ekki bara Covid þáttur lengur, heldur vildum við bjóða upp á skemmtiþátt í vetur, og þættirnir eru orðnir 20 síðan í haust,“ sagði Þór. „Móttökurnar hafa verið alveg frábærar og áhorfið með ólíkindum. Þetta er sennilega sá íslenski þáttur sem hefur mest verið horft á í vetur.“

Framan af vetri var þátturinn sendur út frá Hlégarði en eftir áramót færði hópurinn sig niður í gamla Sjónvarpshúsið við Laugaveg. „Gamla RÚV stúdíóið er þar enn og leigt út; ég vann mjög oft þar þegar ég var hjá Saga film og við gerðum þætti eins og Spurningabombuna með Loga Bergmann, Viltu vinna milljón?, Bandið hans Bubba og fleiri. Þetta er sögufrægt stúdíó; þarna byrjaði íslenskt sjónvarp og mér finnst mjög gaman að vinna þar.“

Þór segir Helga snilling í því að búa til formúlu sem virkar. „Að blanda saman gestum og tónlist sem höfðar til fjölands; hann á heiðurinn af þessu og ég held að einn af stóru þáttunum á bak við velgengni þáttanna sé að fólk sest niður fyrir framan sjónvarpið og er með í partíinu. Það getur til dæmis tekið þátt á Twitter – rödd fólksins sést; þetta er alþýðuskemmtun af bestu gerð.“

Þór segir viðbrögðin ævintýraleg. Nokkuð ljóst er að margir syngja hástöfum með heima í stofu „og ég hef líka heyrt að um leið og þátturinn er búinn séu sumir í svo miklu stuði að þeir horfi jafnvel á hann strax aftur!“

Fróðlegt verður að sjá hvort Helgi segir stopp eftir 30. þátt í kvöld, eða hvort ævintýrið heldur áfram síðar.

Að loknum þætti nýverið. Frá vinstri: Þór Freysson, útsendingarstjóri og einn framleiðenda, Pálmi Gunnarsson, Vilborg Halldórsdóttir, Helgi Björnsson og Matthías Stefánsson. Ljósmynd: Mummi Lú.