Fréttir
Taldi sig sjá bát á hvolfi – ekkert finnst
13.05.2025 kl. 19:22

Fjöldi báta er við leit á þessu svæði, á milli Hauganess vestan fjarðar og Grenivíkur austan megin, m.a. björgunarskipið Sigurvin frá Siglufirði. Myndir: Þorgeir Baldursson
Leit hefur staðið yfir síðan um sexleytið að bát sem vegarandi taldi sig hafa séð á hvolfi í Eyjafirði, á milli Hauganess og Grenivíkur. Björgunarsveitir í Eyjafirði voru kallaðar út, m.a. er björgunarskipið Sigurvin frá Siglufirði á svæðinu, svo og þyrla Landhelgisgæslunnar. Engin ummerki hafa þó enn fundist.
UPPFÆRT Kl. 19:53 – Aðgerðarstjórn Almannavarna á Akureyri birti eftirfrandi á Facebook rétt í þessu:
Kl. 17:42 barst tilkynning til Neyðarlínunnar frá íbúa á Hauganesi, sem taldi sig sjá bát í vandræðum á miðjum Eyjafirði. Tilkynnandi taldi að um hvítan bát væri að ræða og skýrði frá því að báturinn hafi horfið honum sjónum og ekkert sést meir. Neyðarlínan gerði Landhelgisgæslunni viðvart um tilkynninguna. Landhelgisgæslan sendi þyrlu af stað á vettvang og viðbragðsaðilar við Eyjafjörð voru ræstir út.
Þorgeir Baldursson tók meðfylgjandi myndir í kvöld.

Kl. 18:13 óskaði Landhelgisgæslan eftir því að aðgerðarstjórn Almannavarna á Akureyri tæki við stjórn leitaraðgerða. Björgunarsveitir á svæðinu og lögreglan sendu 4 dróna, 4 báta og 3 sæþotur til leitar á vettvang. Auk þess sinntu menn með sjónauka eftirliti úr landi. Farið var í smábátahafnir við Eyjafjörð og grennslast fyrir um hvort einhverja báta vantaði. Ekkert fannst við þessa leit eða eftirgrennslan sem benti til þess að bátur hefði farið niður.
Þyrla kom á vettvang kl. 19:15 og leitaði svæðið all ítarlega. Ekkert nýtt hefur komið fram, enn sem komið er, sem bendir til slyss.
Leit verður væntanlega hætt fljótlega ef ekkert nýtt kemur fram.


