Fara í efni
Íþróttir

Systkinafjöld í íshokkílandsliðunum

Forsjálni Ara Gunnar Óskarssonar í síðasta landsliðsverkefni kvennalandsliðsins í íshokkí skilaði þessari mynd. Mynd af fimm strákum í A-landsliði karla sem er í Serbíu þessa dagana skýrir samsetninguna á þessari mynd. Frá vinstri: Inga Rakel Aradóttir, Sunna Björgvinsdóttir, Gunnborg Petra Jóhannsdóttir, Eva Hlynsdóttir og Saga Blöndal Sigurðardóttir.

Fimm systkinapör hafa verið eða eru í eldlínunni með A-landsliðum Íslands. Fjögur af þessum systkinapörum eru uppalin á Akureyri og í hokkíinu hjá Skautafélagi Akureyrar þó sum þeirra spili nú syðra eða erlendis.

Ari Gunnar Óskarsson, þúsundþjalasmiður og altmuligtman hjá íshokkídeild Skautafélags Akureyrar og með landsliðum Íslands í íshokkí, birti tvær skemmtilegar myndir og áhugaverðar upplýsingar á Facebook-síðu sinni um skyldleika innan landsliða Íslands í íþróttinni. 


Strákarnir sem tengjast stelpunum á aðalmynd fréttarinnar. Þessir eru bræður íshokkístúlknanna fimm á hinni myndinni. Frá vinstri: Ólafur Baldvin Björgvinsson, Uni Steinn Blöndal Sigurðarson, Heiðar Gauti Jóhannsson, Viggó Hlynsson og Gunnar Aðalgeir Arason.

Systkinin sem hafa verið í eldlínunni með landsliðunum eru:

  • Eva Hlynsdóttir (Fjöni) og Viggó Hlynsson (Fjölni)
  • Gunnborg Petra Jóhannsdóttir (Malmö Redhawks) og Heiðar Gauti Jóhannsson (SA)
  • Inga Rakel Aradóttir (Odense IK) og Gunnar Aðalgeir Arason (SA)
  • Saga Blöndal Sigurðardóttir (SR) og Uni Steinn Blöndal Sigurðarson (SA)
  • Sunna Björgvinsdóttir (Södertälje SK) og Ólafur Baldvin Björgvinsson (SA)

Eva og Viggó eru þau einu sem ekki koma upphaflega úr röðum Skautafélags Akureyrar. Auk þessara systkina má svo geta þess að systurnar Katrín og Kolbrún Björnsdætur og Rósu voru með A-landsliðinu á HM á dögunum og báðar á meðal markaskorarar liðsins.

Það má svo bæta í skyldleikaumfjöllunina með því að minnast á að Hulda Sigurðardóttir var í starfsliði kvennalandsliðsins og dóttir hennar, Anna Sonja Ágústsdóttir í landsliðinu. Í starfsliði karlalandsliðsins sem spilar í Serbíu þessa dagana eru áðurnefndur Ari Gunnar, faðir Ingu Rakelar og Gunnars Aðalgeirs, og Rúnar Freyr Rúnarsson, betur þekktur sem Rúnar Eff, en sonur hans, Unnar Hafberg í landsliðinu.