Fréttir
Sýningin Vetrarlíf í reiðhöllinni á morgun
21.11.2025 kl. 19:00
Sýningin Vetrarlíf verður haldin á morgun, laugardaginn 22. nóvember, frá kl. 11.00 til 17.00 í reiðhöll hestamannafélagsins Léttis á Akureyri. Sýningin hefur verið fastur liður í starfsemi LÍV – Landssambands íslenskra vélsleðamanna – frá því 1985 en síðan 1995 hefur hún verið haldin í nafni EY-LÍV, Félags vélsleðamanna í Eyjafirði, sem er deild innan LÍV. Svo skemmtilega vill til að 30 ára afmæli EY-LÍV er fagnað á þessu ári.
Gólf reiðhallarinnar hefur verið klætt með gervigrasi og slegið upp básum. Í tilkynningu segir að sýningin verði stórglæsileg að vanda, þar verði 20 sýnendur og hægt verði að skoða allt sem viðkemur vetrarlífi á Íslandi, eins og það er orðað.
Annað kvöld verður svo árshátíð LÍV haldin í Sjallanum. „Þar verður heldur betur farið til fortíðar en Greifarnir spila fyrir dansi langt fram á nótt,“ segir í tilkynningunni. „Þetta verður því algjör afmælishelgi vélsleðamannsins,“ segir þar.
