Fara í efni
Íþróttir

Svíarnir hafa viljað fá Silvíu í mörg ár

Silvía Rán Björgvinsdóttir, sem leikur í vetur fyrst Íslendinga með íshokkíliði í efstu deild Svíþjóðar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Silvía Rán Björgvinsdóttir, 22 ára Akureyringur, er á leið til sænska íshokkífélagsins Göteborg HC, eins og Akureyri.net hefur áður greint frá. Hún er fyrsti Íslendingurinn sem semur við lið í efstu deild í Svíþjóð í þessari gríðarlega vinsælu íþrótt og er eðlilega afar spennt að takast á við verkefnið.

Sænska deildin er mjög sterk, lið Göteborg HC varð reyndar í neðsta sæti síðasta vetur en hélt sætinu eftir umspil og nú er markmiðið að gera betur. Silvíu bíður því mikil og spennandi áskorun.

Gaman, en erfitt

Síðasta vetur stundaði Silvía Rán nám í bandarískum háskóla, Norwich University í Vermont ríki, og lék með liði skólans en vegna Covid var ekkert spilað fyrr en síðari hluta vetrar. „Það var gaman, en erfitt. Ég veit ekki enn hvað mig langar til að læra og þá borgar sig ekki að vera í skóla. Liðið var mjög gott en það var ungt og ég fann að mig langaði ekki að vera þarna áfram,“ sagði Silvía Rán við Akureyri.net.

Þegar tilboð kom svo frá sænska liðinu þurfti hún ekki að hugsa sig tvisvar um í þetta skipti. „Þetta lið er búið að hafa samband við mig á hverju ári síðan ég lauk grunnskóla – í sex ár! Ég hef ekki verið tilbúin fyrr en núna, vildi prófa aðra hluti fyrst. Ég er mjög heppin að þeir voru til í að bíða svona lengi.“

Var eitt ár í Svíþjóð

Akureyringarnir Guðrún María Viðarsdóttir og Diljá, systir Silvíu Ránar, léku með Gautaborgarliðinu 2015 til 2017, þegar það lék í næst efstu deild, en það komst einmitt upp í þá efstu 2017. Silvía hefur líka sjálf leikið í Svíþjóð áður; hún og Sunna Björgvinsdóttir, liðsfélagi hennar í Skautafélagi Akureyrar voru veturinn eftir menntaskóla með liði Södertälje rétt utan við Stokkhólm. Liðið var í næst efstu deild.

Silvía segir þær Sunnu hafa rennt nokkuð blint í sjóinn, jafnvel talið að deildin væri of sterk fyrir þær en annað kom á daginn. Þær voru bestar í liðinu; Silvía varð markahæst og átti flestar stoðsendingar og Sunna var önnur á markalistanum.

Rosalega spennt

„Efsta deildin í Svíþjóð er mjög sterk, sumir segja að hún sé sú sterkasta í heimi því þar leika margir landsliðsmenn frá bestu löndunum, til dæmis Bandaríkjunum, Kanada, Tékklandi og Finnlandi,“ segir Silvía, spurð um deildina sem hún fær nú að spreyta sig í. „Ég held ég hafi örugglega verið fyrsti Íslendingurinn sem komst í bandarískt háskólalið í íshokkí og það verður gaman að vera fyrsti Íslendingurinn sem leikur í efstu deild í Svíþjóð. Ég er rosalega spennt og held að þetta verði mjög gaman.“

Áhugi, metnaður og drifkraftur

Silvía fylgdist vitaskuld með keppni í efstu deild veturinn sem hún bjó í Svíþjóð. „Það er rosalegur hraði í leikjum, mikil barátta og mikil harka.“ Hún segir það verða mjög gott innlegg í reynslubankann að spila í deildinni.

Silvía segir tækifærið í Svíþjóð mikilvægt bæði fyrir sig og aðra hér heima. „Þegar ég var yngri hafði ég ekki hugmynd um að hugsanlega gæti ég spilað í góðum deildum erlendis. En svo áttar maður sig á því að íslenskir íshokkíleikmenn eru mjög góðir og þeir sem hafa áhuga, metnað og drifkraft geta náð langt.“

Lokaorðin eiga vel við Silvíu Rán Björgvinsdóttir. Hún ætlar sér að ná langt.