Sundlaug Akureyrar lokuð á „versta tíma“

Það hefur líklega ekki farið framhjá neinum að einmuna blíða hefur leikið við bæjarbúa og gesti Akureyrar, eins og raunar um allt land, undanfarna daga. Sundlaugar eru vinsæll áfangastaður sólarþyrstra og brúnkusækinna, en nú ber svo við að þessa dagana er Sundlaug Akureyrar lokuð vegna framkvæmda.
Fram kemur í tilkynningu á vef Akureyrarbæjar að Sundlaug Akureyrar verði lokuð dagana 18.-22. maí, það er frá því á sunnudag, til og með fimmtudegi. „Ráðast þarf í nauðsynlegar endurbætur á öllum pottum og laugum, auk þess sem ný ljós verða sett í laug 1 og nýjar botnlínur soðnar niður í laug 2. Einnig verða allar rennibrautir yfirfarnar og gert við það sem þarf að laga.“
Þá kemur einnig fram að tæma þurfi öll lauga- og pottaker og engin leið að ráðast í þessar framkvæmdir með gesti á sundlaugarsvæðinu, auk þess sem þessi verk þurfi að vinna þegar þurrt er í veðri.
Fyrir utan það að hér í bæ er því haldið fram að hér sé alltaf gott veður virðist um einskæra tilviljun að ræða að þessar framkvæmdir hitta á daga eins og þá sem bæjarbúar hafa fengið að njóta að undanförnu. Framkvæmdirnar hafa verið lengi í undirbúningi, nokkrir verktakar koma að verkinu og þar af einn erlendis frá, að því er fram kemur í tilkynningu bæjarins.