Fara í efni
Fréttir

Straumrás 40 ára – endalaus gleðiglíma

Starfsmennirnir mættir í vinnuna að morgni afmælisdagsins. Guðni Hermannsson verslunarstjóri heldur á myndavélinni og gægist inn á myndina neðst til vinstri, næstur er Haffþór Andri Jóhannsson sölufulltrúi, þá Kristján Stefánsson sölufulltrúi, Hinrik Karl Hinriksson sölufulltrúi og Þórarinn Hrafn Skúlason sölufulltrúi. Á myndina vantar Rúnar Steingrímsson sölufulltrúa. Mynd: Guðni Hermannsson/Straumrás.

Við erum hérna til að hafa gaman, eða eitthvað á þá leið var það sem Guðni Hermannsson, verslunarstjóri Straumrásar á Akureyri, sagði við tíðindamann frá akureyri.net þegar hann rak inn nefið hjá Guðna og félögum síðdegis í tilefni þess að fyrirtækið er 40 ára í dag. Boðið var upp á tertu í tilefni dagsins, sem reyndar var búin þegar það komst loks í verk að heilsa upp á afmælisbarnið

Guðni hefur sjálfur unnið hjá fyrirtækinu í 36 ár af þessum 40 og segist stundum spurður hvernig hann geti verið í þessu sama svona lengi. Hann segir hins vegar að þetta sé eiginlega eins og leikhús, stundum sé hann leikstjórinn, stundum í aðalhlutverki, stundum í aukahlutverki, en þegar öllu er á botninn hvolft snúist starfið um samskipti og að tala við fólk. Það er líka þannig að þarna hafa sömu viðskiptavinirnir verslað í áraraðir, áratugi, og oft koma þeir líka við upp á kaffisopa og félagsskapinn þó ekki vanti neitt úr búðinni í það skiptið. 

40 ára kennitala, 36 ár á sama stað

Guðni skrifaði óformlegan afmælispistil á Facebook-síðu fyrirtækisins í morgun og birti myndir af samstarsfmönnum, tertunni og viðskiptavini til margra ára. Hann vekur athygli á að fyrirtækið hafi starfað í 40 ár og lifað á sömu kennitölunni og nánast í óbreyttri mynd allan tímann. Slíkt gerist ekki á hverjum degi og ekki einu sinni á hverju ári, eins og hann orðar það. 

Kristján Stefánsson, Guðni Hermannsson og Hafþór Andri Jóhannsson voru á vaktinni í dag þegar tíðindamaður frá akureyri.net leit við.

Straumrás hóf starfsemi að Furuvöllum 1 og opnaði verslunina 25. nóvember 1985, en flutti sig síðar um 30 metra til austurs, í Furuvelli 3 þar sem starfsemin er núna. Það er ekki bara Guðni sem hefur unnið lengi hjá fyrirtækinu. Rúnar Steingrímsson kemur fast á hæla hans með 33 ár og Hinrik Karl Hinriksson hefur starfað þar í 16 ár.

„Ég á enga vini í fjölmiðlum“

Guðni slær á létta strengi í afmælispistlinum, segir margs að minnast en hann muni bara ekki í augnablikinu hvers er að minnast. Viðskiptavinirnir þó efst í huga og „endalaus gleðiglíma okkar við að reyna að uppfylla þarfir þeirra og óskir.“ Viðskiptavinirnir eru líka duglegir að koma aftur og aftur og segir Guðni fyrirtækið ekki hafa eytt miklum peningum í hefðbundnar auglýsingar í gegnum árin. Þar hljóti að spila inn í eitthvað sem verður til við afgreiðsluborðið, „eitthvert samband sem verður til á milli okkar og viðskiptavinanna.“

„Ég á enga vini sem eru í fjölmiðlum og hef aldrei átt neina sjálfvirka né sjálfhverfa innkomu þar. Í þessi 40 ár held ég að enginn fjölmiðlamaður eða kona hafi haft samband við okkur hér í Straumrás út af einu eða neinu, við bara erum hér á okkar stað árið inn og út til þjónustu reiðubúnir fyrir hvern sem er, næstum því hvenær sem er,“ skrifar Guðni, en rifjar þó jafnframt upp þegar þeir handsömuðu lambhrút við útidyrnar. Hrúturinn vildi komast inn til að kaupa sér vasaljós, segir Guðni.
 
Einn af föstu viðskiptavinum Straumrásar til margra ára, Pétur Halldórsson, leit við í dag og gæddi sér á tertusneið með starfsmönnum í tilefni dagsins. Til vinstri er Þórarinn Hrafn Skúlason, einn sölufulltrúa í versluninni. Myndirnar eru af Facebook-síðu Straumrásar.
Guðni og strákarnir hans í Straumrás hafa sérstaklega í hávegum að taka lífið við afgreiðsluborðið ekki of alvarlega. „Við höfum verið sérlega heppnir með starfsmenn alla tíð sem hafa fylgt og fylgja þessu mottói býsna vel. Það að brosa framan í heiminn og þann sem maður er að tala við er náttúrulega bara lífselexír en engin snákaolía. Eitt það besta sem ég veit er þegar kúnninn minn fer brosandi út úr búðinni hjá okkur.“ Hann segir það líka mjög ágætt hafi viðskiptavinurinn líka meðferðis það sem hann kom til að kaupa, eða að minnsta kosti eitthvað sem hann keypti þó hann hafi ekki beinlínis vatnað það.