Fara í efni
Mannlíf

Stemningin einstök í Vaglaskógi – MYNDIR

Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Vor í Vaglaskógi voru ekki bara tónleikar. Hátíðin byrjaði kl 14 í gær, og stóð alveg til kl. 23.30, í góðu veðri í fegurð Fnjóskadals. Að komast á staðinn lagði svolítið grunninn að stemningunni, en úr öllum áttum streymdi fólk með tjaldstóla undir hendinni, ansi mörg með kúrekahatta á höfðinu og létt í spori.

Tónleikarnir voru haldnir rétt sunnan við skóginn, á landi sem kallast Mörk. Á stærðarinnar túni var búið að undirbúa stóra senu, með plássi fyrir 7000 gesti, svæði með borðum, stólum og matarvögnum, tjaldsvæði og bílastæði. Litlir staflar af pallettum lágu um víð og dreif fyrir gesti að búa sér hreiður fyrir hátíðina, en plássið var gott, þannig að hægt var að koma sér vel fyrir. Tónlistaratriðin tóku við hvert af öðru, góð pása inn á milli, þannig að fólk gat rölt um og heilsað upp á vini og fengið sér að borða. Einhverjir gripu í spil, fólk lagði sig í grasinu og einn sat meira að segja með rokk og var að spinna garn. 

 

Hljómsveitin Kaleo átti hugmyndina að hátíðinni, en þeir spiluðu tvisvar sinnum yfir daginn. Snemma dags tóku þeir 'unplugged' sett, en Jökull Júlíusson var með þennan fallega Íslandsgítar. Hljómsveitin var líka síðust á svið og kláraði tónleikana með krafti. Mynd: RH

Hittumst við aftur að ári í Vaglaskógi?

Gestir voru á öllum aldri, en mikið var um krakka og fjölmargir höfðu með sér hunda í bandi. Fjölskyldustemning einkenndi daginn, en tónlistaratriðin voru líka þannig stemmd, að enginn æsingur var í fólki. Hlýja, lopapeysur, sumarfólk, spjall, skógarrölt og fleira gott einkenndi daginn, en blaðamaður vonar innilega að hátíðin Vor í Vaglaskógi verði endurtekin á næsta ári. Utanumhald, samgöngur (sem voru krefjandi mál að leysa fyrir lögreglu og fleiri) og öryggismál voru til fyrirmyndar.

Fram komu Kaleo, sem áttu frumkvæðið að hátíðinni, Hjálmar, Júníus Meyvant, Jack Magnet, Bear the Ant, Elín Ey, Svavar Knútur og Doktor Viktor. Kynnar voru hraðfréttamennirnir Benni og Fannar. Hér fylgir myndasafn frá deginum, en blaðamaður átti einstaklega skemmtilegan dag með myndavélina og naut þess að fylgjast með gestum og hlusta á tónlistina.