Fara í efni
Íþróttir

Stelpurnur töpuðu úrslitaleiknum

Sandra María Jessen gerði fyrra mark Þórs/KA í úrslitaleiknum og varð langamarkahæst í keppninni. Ljósmynd: Hafliði Breiðfjörð - fotbolti.net
Þór/KA tapaði úrslitaleik Lengjubikarkeppninnar í knattspyrnu fyrir Stjörnunni í dag eftir vítaspyrnukeppni. 
 
Staðan var 2:2 eftir hefðbundinn leiktíma og strax að þeim 90 mínútunum loknum var gripið til vítakeppninnar. Óhætt er að fullyrða að enginn, hvorki leikmenn, áhorfendur né aðrir, urðu vonsviknir að ekki var leikin 30 mínútna framlenging því rok, kuldi og mikil rigning var á Samsung vellinum í Garðabæ og næsta nágrenni. 
 
Stelpurnar okkar komust tvisvar yfir í leiknum; Sandra María Jessen braut ísinn með lúmsku skoti á 14. mínútu eftir frábæra sendingu Karenar Maríu Sigurgeirsdóttur. Sandra varð lang markahæst í keppninni að þessu sinni; þetta var 12. mark hennar í keppninni.
 
Snædís María Jörundsdóttir á 34. mín. eftir klaufaskap í vörn Þórs/KA, Hulda Ósk Jónsdóttir náði forystunni á ný með glæsilegu skoti utan vítateigs eftir sendingu Söndru Maríu á 62. mín. og Ólína Ágústa Valdimarsdóttir jafnaði með fallegu marki á 76. mín.
 
Vítaspyrnukeppnin, Stjarnan – Þór/KA:
  • 0:1 – Jakobína Hjörvarsdóttir
  • 1:1 – Jasmín Erla Ingadóttir
  • 1:2 – Sandra María Jessen
  • 2:2 – Heiða Ragney Viðarsdóttir
  • 2:2 – Hulda Ósk Jónsdóttir - skaut yfir markið
  • 3:2 – Andrea Mist Pálsdóttir
  • 3:3 – Tahnai Lauren Annis
  • 4:3 – Alma Mathiesen
  • 4:4 – Hulda Björg Hannesdóttir
  • 5:4 – Sædís Rún Heiðarsdóttir

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna

Keppni í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, hefst í lok apríl. Fyrsti leikur Þórs/KA verður miðvikudaginn 26. apríl og svo skemmtilega vill til að hann verður gegn Stjörnunni í Garðabæ.

Smellið hér til að sjá viðtal við Söndru Maríu Jessen á fotbolti.net eftir leikinn

Smellið hér til að sjá viðtalið við Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari Þórs/KA á fotbolti.net eftir leikinn