Fara í efni
Íþróttir

„Stelpurnar okkar“ stórkostlegar!

Martha Hermannsdóttir og Katrín Vilhjálmsdóttir hampa bikarnum eftir leikinn í dag. Ljósmynd: Alma S…
Martha Hermannsdóttir og Katrín Vilhjálmsdóttir hampa bikarnum eftir leikinn í dag. Ljósmynd: Alma Skaptadóttir.

KA/Þór varð bikarmeistari í handbolta í fyrsta skipti í dag, þegar liðið sigraði Fram mjög örugglega í úrslitaleik Coca cola bikarkeppninnar, 26:20, í Haukahúsinu að Ásvöllum í Hafnarfirði.  Þar með lýkur loks keppnistímabilinu 2020 til 2021, og Stelpurnar okkar eru bæði Íslands- og bikarmeistarar. Auk þess er liðið deildarmeistari og Meistari meistaranna.

Liðið var frábært í dag – og sigurinn heldur betur verðskuldaður.

Taugar leikmanna voru þandar framan af leiknum og ekki að undra, því eftirsóttur titill var í húfi. KA/Þór komst í 2:0, Fram gerði fyrsta markið á fjórðu mínútu og síðan var ekki skorað fyrr en á níundu mínútu þegar Fram jafnaði 2:2. KA/Þór komst svo í 6:2 með frábærum kafla en eftir leikhlé Framara jöfnuðu þeir 6:6 og komust fljótlega yfir, 8:7. Það var í eina skipti í leiknum sem Reykjavíkurliðið komst yfir!

KA/Þór var þremur mörkum yfir í hálfleik, 12:9, og jók muninn jafnt og þétt fyrstu mínútur seinni hálfleiksins. Staðan var orðin 16:10 eftir aðeins fimm mínútur og sjö marka munur var þegar tíu mínútur voru liðnar, 18:11. Þá fékk Aldís Ásta Heimisdóttir þriðju brottvísunina og þar með rautt spjald. Örugglega hefur farið um einhverja því Aldís Ásta hafði leikið frábærlega í sókninni og 20 mínútur voru eftir.

Lið KA/Þórs hikstaði dálítið eftir að Aldísar Ástu naut ekki lengur við, Framarar minnkuðu muninn í þrjú mörk, 20:17, en þegar Stelpurnar okkar náðu áttum skelltu þær í lás í vörninni á ný og stigu bensínið í botn hinum megin á vellinum.

Sigurinn er mikið afrek hjá Andra Snæ þjálfara og leikmönnum liðsins. Í fyrsta lagi er magnað að fá ekki nema 20 mörk á sig gegn firnasterku liði Fram, í annan stað er lygileg tölfræði að Fram geri ekki nema tvö mörk eftir hraðaupphlaup í heilum leik. Lykillinn að sigrinum var vel samstilltur varnarleikur, mjög góð markvarsla og það að hafa skynsemina að leiðarljósi í sókninni. Leikskipulag KA/Þórs gekk nánast fullkomlega upp.

Unnur Ómarsdóttir gerði 6 mörk fyrir KA/Þór í dag, Aldís Ásta Heimisdóttir og Rut Jónsdóttir 5 hvor, Rakel Sara Elvarsdóttir og Martha Hermannsdóttir 4 hvor (Martha 3 úr víti), Hulda Bryndís Tryggvasdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir 1 hvor.

Matea Lonac varði 14 skot, þar af eitt víti – var með 41,2% markvörslu.

Innilega til hamingju Akureyringar, með geggjað lið og frábæran árangur!

Smellið hér til að sjá frekari tölfræði á leikskýrslunni.

Smellið hér til að sjá myndasyrpu frá fögnuði KA/Þórs eftir leikinn.

Aldís Ásta Heimisdóttir fylgist með lokakafla úrslitaleiksins í dag. Hún var rekin af velli í þriðja skipti þegar 20 mínútur voru eftir, og mátti þar með ekki koma frekar við sögu. Það var áfall fyrir KA/Þór því Aldís Ásta hafði verið frábær, en þegar upp var staðið kom það ekki að sök. Ljósmynd: Alma Skaptadóttir.

Frábært lið KA/Þórs eftir sigurinn í dag: Íslandsmeistarari, deildarmeistari, bikarmeistari og Meistari meistaranna 2020 til 2021! Ljósmynd: Alma Skaptadóttir.