Steinunn flytur ljóð í tali og tónum í Davíðshúsi
Í tilefni Lúsíudags verður ofið úr ljóðum og tónum í stofu Davíðshúss á ljóðastund með Steinunni Arnbjörgu Stefánsdóttur. „Ég ætla að tileinka Minjasafninu lítið jólaljóðalag sem við Sophia Fedorovych setjum fyrir heyrnir fólks í fyrsta sinn á laugardaginn,“ segir Steinunn í kynningu viðburðarins, sem verður haldinn kl. 17:00 á morgun, laugardag.
Steinunn les og úr nýútkominni bók sinni, Yndishrúga. Einnig verður flutt tónverkið Leçon de ténèbres, harmljóð fyrir fiðlu, selló og þrjá hluti eftir Steinunni, auk tveggja heimatilbúinna jólaljóðalaga. Þar af er frumflutningur annars lagsins. Steinunn leikur á selló en Sophia leikur á fiðlu.

Viðburðurinn verður haldinn í Davíðshúsi, á laugardaginn kl. 17.00. Mynd: Facebook
Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir fæddist í Reykjavík árið 1981. Hún er sellóleikari, tónskáld og ljóðskáld. Hún leitar víða fanga í ljóðum sínum; bregður fyrir sig rímnakveðskap og syngur jafnvel á frönsku í stíl við franskan chanson – sem er hin eiginlega þjóðlagahefð Frakka á 20. öld.
Yndishrúga er fimmta bók Steinunnar sem áður hefur gefið út bækurnar; Satanía hin fagra 2021, Vél 2020, Fugl/Blupl 2018 og USS árið 2016.