Stefán G. Jónsson, eðlisfræðingur og kennari, lést 15. september síðastliðinn á heimili sínu í faðmi fjölskyldunnar eftir stutta en kröftuglega baráttu við krabbamein.
Stefán fæddist á Munkaþverá í Öngulstaðahreppi (nú Eyjafjarðarsveit), 3. október 1948, sonur Jóns Kristins Stefánssonar og Önnu Aðalheiðar Guðmundsdóttur. Vísindi og menntun skipuðu stóran sess í lífi Stefáns jafnt í námi, starfi og lífsviðhorfi. Hann varð snemma talnaglöggur og móðir hans gat lengi haft ofan af fyrir honum með því að leggja fyrir hann löng reikningsdæmi. Hann talaði alltaf hlýlega um barnaskólaárin sín í sveitinni sem reyndust honum gott veganesti á löngum námsferli hans. Eftir barnaskóla flutti hann til Akureyrar og lauk landsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1964 og stúdentsprófi frá sama skóla árið 1968. Árið 1965 fór hann út sem skiptinemi til New York ríkis í Bandaríkjunum og dvaldi þar hjá Burns fjölskyldunni sem hann hélt nánu sambandi við alla tíð. Að menntaskóla loknum nam hann verkfræði við Háskóla Íslands í eitt misseri en flutti síðan til Uppsala í Svíþjóð þar sem hann lauk Cand. fil. prófi í stærðfræði og eðlisfræði árið 1972. Árið 1976 flutti hann með fjölskyldunni til Lundar í Svíþjóð þar sem hann lauk doktorsprófi í kjarneðlisfræði árið 1983.
Stefán lagði mikið af mörkum til menntamála á starfsævi sinni og þá sérstaklega í heimabyggðinni Akureyri. Hann hóf starfsferil sinn sem kennari við Menntaskólann á Akureyri árið 1972 og kenndi þar stærðfræði og eðlisfræði með hléum allt til starfsloka árið 2016. Hann skrifaði viðamikinn kennslubókaflokk í stærðfræði á framhaldsskólastigi, ásamt Níelsi Karlssyni og Jóni Hafsteini Jónssyni, sem hefur verið notaður víða í framhaldsskólum landsins. Stefán var í hópi fyrstu starfsmanna Háskólans á Akureyri við stofnun hans árið 1987 en hann var forstöðumaður Rekstrardeildar og átti stóran þátt í uppbyggingu hennar. Þá var hann staðgengill rektors um tíma. Hann var dósent við Kennaradeild háskólans til ársins 2006 að undanskildum árunum 2001 - 2003 þegar hann vann sem sérfræðingur hjá Íslenskri erfðagreiningu. Að auki starfaði hann sem stundakennari við Háskólann í Lundi, Háskólann í Reykjavík og Menntaskólann við Hamrahlíð.
Stefán var mikill og traustur fjölskyldumaður. Hann kynntist verðandi eiginkonu sinni, Sigríði Sigurbjörgu Jónsdóttur, í ágúst 1973 en þau trúlofuðust um mánuði síðar og hann gekk börnunum hennar þremur í föðurstað. Þau eignuðust saman þrjá drengi og í dag eru barnabörnin sextán talsins og barnabarnabörnin ellefu. Þau hjónin voru alla tíð samhent og ráku eftir flutningana frá Svíþjóð stórt heimili í Kringlumýri 4 á Akureyri. Það var fjölskyldunni mikið áfall þegar heimili þeirri eyðilagðist í bruna rétt fyrir jólin 1987 en með góðri aðstoð fjölskyldu og vina endurbyggðu þau húsið og bjuggu þar áfram. Þau nutu þess einnig að eiga lítinn sumarbústað í Svíþjóð og voru dugleg að nýta hann. Árið 2003 fluttu þau í Holtateig 24 og þar bjó Stefán til æviloka. Sigríður veiktist árið 2016 og sinnti Stefán henni af hlýju og natni þar til yfir lauk tæpum tveimur árum síðar. Fráfall hennar var honum þungbært. Saman höfðu þau verið dugleg að ferðast og sækja ýmsa listviðburði.
Síðustu árin tók hann upp gamalt áhugamál þegar hann hóf aftur að sækja fundi hjá Skákfélagi Akureyrar. Hann var alla tíð mikill áhugamaður um skák og náði ungur góðum tökum á skáklistinni. Stefán var ættrækinn og vinamargur og hélt miklu sambandi við frændfólk sitt, vini sína frá menntaskólaárunum og gamla samstarfsfélaga. Það reyndist honum seinna ómetanlegur stuðningur í veikindunum en vinir hans og fjölskylda sinntu honum af mikilli alúð með löngum símtölum og tíðum heimsóknum allt fram á síðasta dag.