Fara í efni
Fréttir

Staða láglaunakvenna á Íslandi rannsökuð

Glaðar í bragði! Frá vinstri: Kristín Heba Gísladóttir, starfsmaður Vörðu – Rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins, Berglind Hólm Ragnarsdóttir, sem fer fyrir rannsóknarhópnum og Anna Soffía Víkingsdóttir, starfsmaður RHA.

Hópur rannsakenda frá Háskólanum á Akureyri hlaut á dögunum fjögurra milljóna króna styrk úr Jafnréttisjóði. Þetta kemur fram á vef Háskólans á Akureyri, þar sem þess er getið að fjögur rannsóknarverkefni hlutu styrk en 81 umsókn barst.

Berglind Hólm Ragnarsdóttir, lektor við Hug- og félagsvísindasvið, fer fyrir rannsóknarhópnum. Auk hennar eru í hópnum Andrea Hjálmsdóttir, lektor við Hug- og félagsvísindasvið, Bergljót Þrastardóttir, lektor við Kennaradeild, og Valgerður S. Bjarnadóttir, nýdoktor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. 

Rannsóknin er unnin í samstarfi við Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) og Vörðu – Rannsóknastofnun vinnumarkaðarins. Verkefnið ber titilinn Working- Class women, Well-being and the Welfare State: New Evidence from the Icelandic Context.

Markmið verkefnisins er að rannsaka stöðu láglaunakvenna á íslenskum vinnumarkaði. Rannsóknin er tvíþætt: Annars vegar verður kannað hvernig ólíkir þættir sem tengjast vinnu og fjölskyldulífi hafa áhrif á líkamlega og andlega velferð kvenna á Íslandi og samspil þess við félags- og efnahagslega stöðu þeirra. Hins vegar er rannsókninni ætlað að koma á framfæri reynslu láglaunakvenna af velferðarkerfinu og hlutverki þess í að sporna við og viðhalda félagslegum ójöfnuði.