Fara í efni
Fréttir

Sprauturnar á lofti á slökkvistöðinni

Sprautan á lofti á slökkvistöðinni í morgun. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson
Sprautan á lofti á slökkvistöðinni í morgun. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Starfsmenn hjúkrunarheimilanna á Akureyri, Hlíðar og Lögmannshlíðar, auk Grenilundar á Grenivík, eru bólusettir fyrir Covid-19 í dag. Straumur var á slökkvistöðina á Akureyri þegar blaðamann bar að garði í morgun en alls verða 150 manns bólusettir þar í dag. Allt gengur eins og í sögu að sögn starfsfólks Heilbrigðisstofnunar Norðurlands. Fólk staldrar ekki lengi við; er skráð inn, sprautað og sest síðan í „biðstofuna“ undir vökulu auga slökkviliðsmanna þar sem dvalið er um stund í öryggisskyni á meðan í ljós kemur hvort nokkrum verði meint af. 

Áfram verður sprautað á slökkvistöðinni í næstu viku, og þá á að bólusetja áttræða og eldri, eins og Akureyri.net hefur þegar greint frá. Einhverjum kann að þykja undarlegt að bólusetning fari fram á slökkvistöðinni en fólk sagðist hafa lúmskt gaman af því að koma þangað og lét vel af öllu.