Spinnur garn úr ull af Huskyhundunum

„Taka rokkinn með mér á tónleika? Af hverju ekki? Ég sit hérna í góðum félagsskap í góðu veðri að hlusta á fallega tónlist í nokkra klukkutíma, það er tilvalið að taka rokkinn með,“ segir Gunnar Eyfjörð Ómarsson, hundabóndi og spunameistari. Hann vekur athygli blaðamanns, þar sem hann er einn 7.000 gesta á tónleikunum Vor í Vaglaskógi, og situr í rólegheitum í áhorfendaskaranum með rokk, að spinna ull. Svo kemur á daginn, að hann er ekki að spinna hefðbundna ull, heldur ull af Siberian Husky hundunum sínum, sem eru orðnir 28 að tölu.
Við hlið Gunnars á tónleikunum situr konan hans, María Björk Guðmundsdóttir, en hún prjónar alls konar þarfaþing úr ullinni sem Gunnar spinnur. Þau hjónin reka ferðaþjónustu tengda hundunum sínum, sem heitir goHusky, en þar geta gestirnir einmitt keypt sér húfu, vettlinga eða eitthvað fallegt, prjónað úr ullinni af hundunum.
Hugguleg samvinna í Vaglaskógi. Gunnar spinnur og María Björk prjónar. Mynd: RH
T.v. Ýmsar hlýlegar prjónavörur Maríu Bjarkar úr huskygarninu. T.h. María með fyrsta hundinum þeirra hjóna, henni Ösku, sem átti bara að vera ein til að byrja með. Myndir: Facebook síða goHusky
Ætluðu bara að fá sér einn hvolp
„Þetta byrjaði allt fyrir 14 árum síðan þegar við fengum okkur hvolp. Þegar við vorum svo komin með hvolpa númer 6 og 7, forðuðum við okkur úr bænum og settumst að í Glæsibæ,“ segir Gunnar. „Þetta var bara alls ekki planið, þegar sá fyrsti kom. Ég ætlaði bara að eiga hvolp til þess að labba með og hafa fyrir gæludýr, svona eins og fólk gerir.“
„Við komumst svo fljótlega inn í samfélag fólks sem eru með husky hunda, en þetta eru svona 10 fjölskyldur,“ segir Gunnar. „Þau fóru að kynna okkur fyrir sportinu, sem við höfðum ekki hugmynd um. Síðustu 13 ár höfum við semsagt verið að keppa á hundasleðum, sem eru dregnir af hundunum, og á gönguskíðum, þar sem 1-2 hundar draga þig áfram á skíðunum. Á sumrin er svo hægt að gera það sama á hjóli, hlaupahjóli eða hlaupandi.“ Gunnar segir að heima séu þau með fjöldan allann af verðlaunum og bikurum fyrir góðan árangur í þessum keppnum, en tekur fram að það sé María Björk sem eigi heiðurinn af bróðurparti verðlaunanna.
Byggðu hægt og rólega upp tekjulind
„Við fundum þarna skemmtilegan lífsstíl, sem við urðum strax hrifin af,“ segir Gunnar. „Þá fórum við hægt og rólega að fjölga hundunum. Allt í einu áttaði ég mig á því að ég var kominn með tvo ketti, þrjá krakka og fimm stóra hunda í tvíbýli í miðri Akureyri. Þá var farið að þrengja svolítið að. Við sáum að það voru tvö fyrirtæki, hjá hundaeigendum, sem voru að bjóða upp á ferðaþjónustu tengda hundunum, sem virtist vera að virka. Þá tókum við skrefið að flytja úr bænum og hendast í þetta.“
„Við byrjuðum á því að bjóða upp á sleðaferðir fyrir hópa,“ segir Gunnar. „Vorum enn að vinna inn á Akureyri, en gerðum heimasíðu og fyrirtækið hóf að vaxa hægt og rólega. Það er augljóslega ekki hægt að bjóða upp á sleðaferðir nema það sé snjór, þannig að við fórum að spá í það, hvað í ósköpunum væri hægt að bjóða upp á þegar enginn er snjórinn.“
T.v. Huskyhundarnir draga Maríu Björk á hjóli. T.h. Hundarnir eru fallegir, og þekktir fyrir skær og viturleg augun. Myndir: Facebook síða goHusky.
Samvera með hundunum sló í gegn
Gunnari og Maríu Björk datt í hug að bjóða upp á samveru með hundunum, að fólk gæti komið að klappa þeim og leika við hvolpa eða koma út í göngu með hundana. „Þetta sló í gegn,“ segir Gunnar. „Við fáum allt að þrjár heimsóknir á dag nema á sunnudögum, allan ársins hring. Gestirnir eru flestir útlendingar, ég fæ kannski tvo hópa af Íslendingum á mánuði. Þau vita bara ekki af okkur, held ég.“
Hundarnir eru kembdir reglulega, og af þessum 28 hundum fæst gríðarlega mikill feldur daglega, sem Gunnari fannst agalegt að færi bara í ruslið. „Ég fór að hugsa hvernig ég gæti nýtt þetta eitthvað, og komst að því að það væri hægt að spinna úr þessu band,“ segir hann. „Ég fór á námskeið hjá Höddu í Dyngjunni, og lærði að spinna garn fyrir þremur og hálfu ári.“
„Að sitja hérna, í þessari blíðu með rokkinn minn, er eiginlega eins og hugleiðsla,“ segir Gunnar brosandi. „Þetta er rosalega afslappandi, ég sit bara hérna í minni eigin búbblu og spinn. Praktískt séð er ég svo náttúrulega dragbítur á framleiðslunni, konan er miklu fljótari að prjóna en ég að spinna, þannig að um að gera að nýta tímann!“
Áhugasöm um goHusky, ferðaþjónustu Gunnars og Maríu Bjarkar, geta skoðað heimasíðuna hérna.