Fara í efni
Menning

Kynslóðunum teflt saman í röð tónleika

Magni Ásgeirsson og Stefán Elí ríða á vaðið í Hofi með tónleikum 3. desember.

Framundan er tónleikaröð í menningarhúsinu Hofi þar sem kynslóðunum verður teflt saman. Listamennirnir verði á sviðinu í Hamraborg og áheyrendur í sal í samræmi við sóttvarnarreglur, en tónleikunum verður einnig streymt á netinu svo áhugasamir um víða veröld geta notið. Tónleikaröðina kallar Menningarfélag Akureyrar, Í Hofi og heim.

Tveir tónlistarmenn koma fram saman, annar ungur og efnilegur Akureyringur, hinn reyndur og landskunnur. Það verða þeir Magni Ásgeirsson og Stefán Elí sem ríða á vaðið; þeir leiða saman hesta sína í næstu viku, fimmtudaginn 3. desember. Þeir leika þekktustu lög beggja og einhver lög sem tengjast jólunum gætu lent á efnisskránni“ eins og það er orðað í frétt á heimasíðu Hofs.

Þann 10. desember er komið að söngkonunni Þórhildi Örvarsdóttur og píanóleikaranum unga Alexander Edelstein og munu þau færa áheyrendum „hugljúfa vetrarstemningu með tónlist úr ýmsum áttum. Hinn margreyndi Friðrik Ómar og ungstirnið Eik Haraldsdóttir koma saman á spennandi tónleikum 14. janúar en með þeim spilar gítarleikarinn Hallgrímur Ómarsson. Síðust en ekki síst er það sjálf stórstjarnan Andrea Gylfadóttir og Einar Óli sem kemur fram undir listamannsnafninu iLo en þeirra tónleikar fara fram fimmtudaginn 21. janúar. Allir tónleikarnir hefjast kl. 20.“

Þórhildur Örvarsdóttir og Alexander Edelstein - Friðrik Ómar og Eik Haraldsdóttir - Andrea Gylfadóttir og Einar Óli.