„Sósan sem við elskum og fyrirlítum í senn“
„Hver er þessi sósa sem flest okkar höfum búið með í áratugi, ýmist í ástar- eða hatursambandi, nema hvort tveggja sé? Fáir vita nokkur deili á henni, hvernig hún settist að hjá okkur og varð svona sterkur förunautur.“
Þannig hefst þriðji pistill Þráins Lárussonar í röðinni MATARÞRÁ-INN sem akureyri.net birtir í dag. Í tveimur fyrstu fjallaði Þráinn um spænska hrísgrjónaréttinn paellu, og vöktu þeir mikla ánægju lesenda. Í dag beinir Þráinn sjónum að kokteilsósu!
„Kannski má með réttu segja að hún sé „óformleg þjóðarsósa“ sem við elskum og fyrirlítum í senn,“ segir Þráinn. „Margir hafa reynt að skilja við hana, ýtt henni út yfir þröskuldinn, en á einhvern óskiljanlegan hátt ratar hún alltaf aftur á diskinn. Sumum reynist jafnvel ómögulegt að lifa án hennar – enda er hún alls staðar, nánast óumflýjanleg.“
- Akureyringurinn Þráinn Lárusson er matreiðslumeistari og hefur í fjöldamörg ár verið áberandi sem athafnamaður í ferðaþjónustu á Austurlandi þar sem hann hefur rekið bæði veitingastaði og hótel. Hann mun skrifa fjölbreytta pistla um mat fyrir akureyri.net á næstunni. Þeir birtast á laugardögum.
Grein Þráins í dag: Kokteilsósa – Ástar- eða haturssamband