Fréttir
Sólarhringsmet sett í Vaðlaheiðargöngum
27.07.2025 kl. 18:30

Gríðarlega mörg ökutæki voru á ferð í Fnjóskadal í gær og var m.a. lagt á Hróarsstaðatúni, þar sem myndin var tekin, um tveimur kílómetrum frá tónleikastaðnum. Myndir: Skapti Hallgrímsson
Met var sett í umferð um Vaðlaheiðargöngin í gær, en þá fóru yfir 5.100 ökutæki um göngin. Það er mesta sólarhringsumferð frá því að göngin voru opnuð í lok árs 2018. Umferðin var meiri í austurátt, 60% ferða um göngin voru í austur, en ferðir til vesturs voru flestar seinnipart dags og fram yfir miðnætti. Þetta kemur fram á Facebook-síðu Vaðlaheiðarganganna.
Ekki þarf að leita langt yfir skammt til að finna ástæðuna fyrir metinu, tónleikarnir Vor í Vaglaskógi haldnir í gær og um sjö þúsund manns á tónleikasvæðinu. Af þessum rúmlega 5.100 ferðum um göngin voru 95% fólksbílar, 2% millistórir (3,5-7,5 tonn) og 3% stærri en 7,5 tonn. Umferðin gegn áfallalaust fyrir sig og stóðu ökumenn sig vel í því að fylgja jöfnum hraða að því er fram kemur í tilkynningu Vaðlaheiðarganga.
Vaðlaheiðargöngin voru opnuð fyrir umferð síðdegis 21. desember 2018 og var gjaldfrítt í gönginn til miðættis þann 1. janúar 2019. Fyrsta rekstrarárið fóru um 528 þúsund bílar um göngin.

Ekið í gegnum Vaðlaheiðargöngin í gær; sárafáir bílar á ferð á þessum tíma, um kukkan hálf sex síðdegis, en aldrei hafa fleiri ökutæki farið um göngin á einum sólarhring.