Fara í efni
Menning

Sögulok – kveðjuhátíð Hrundar í Laugarborg

Hrund Hlöðversdóttir heldur hátíðina Sögulok í Laugarborg í Eyjafjarðarsveit í dag, tónleika og útgáfuhóf þriggja bóka.

„Þetta er kveðjuhátíð mín í Eyjafjarðarsveit en jafnframt útgáfuhátíð þriðju bókar í ungmennabókarflokknum um Svandísi og vini hennar sem heitir ÓLGA, kynjaslangan. Öllum er velkomið að mæta,“ segir Hrund.

Viðburðurinn tekur um klukkustund og hægt er að velja á milli tveggja tímasetninga kl. 15:00 eða kl. 17:00. Miðasala er á tix.is.

Fyrsta bók Hrundar í þríleiknum, ÓGN, ráðgátan um Dísar-Svan kom út í miðjum heimsfaraldri haustið 2021 og þegar önnur bókin kom út ári seinna var enn farið með varúð í allar samkomur og Hrund því ekki haldið neitt útgáfuhóf hingað til.

„Miðaverði er stillt í hóf, 2500 kr. en frítt er fyrir börn,“ segir í tilkynningu. „Einnig er að hægt að velja það að kaupa bókina, ÓLGU, í gegnum miðakaup á tix.is og þá kostar bókin og aðgangur að tónleikum samtals 4500 kr.“

Söguheimur bókanna

„Síðustu árin hef ég verið við harmonikkunám í Tónlistarskóla Eyjafjarðar en fyrr á ævinni lærði ég bæði píanóleik og söng. Ég hef haldið nokkra tónleika og spilað þá á harmonikkuna og sungið lög sem ég hef hljómsett svo þau henti mínu raddsviði.“

Í Sögulokum verða lesnir textar sem lýsa söguheimi bóka Hrundar en þar vinnur hún með ævintýraheiminn sem er að finna í íslenskum þjóðsögum. „Eftir hvern lestur er spilað lag sem tengist því sem var verið að lesa um hverju sinni t.d. þegar lesið verður um draugana sem finna má í íslenskum þjóðsögum er sungið og spilað lag um drauga. Eins þegar fjallað er um skrímslin og kynjaskepnurnar þá kemur lag á eftir sem tengist þeim. Viðburðurinn tekur um klukkustund og er hugsaður sem skemmtun fyrir alla fjölskylduna.“

Kveðjutónleikar

„Um síðustu áramót tók ég þá ákvörðun að hætta sem skólastjóri eftir tólf farsæl ár við Hrafnagilsskóla og flytja úr Eyjafjarðarsveit og þá langaði mig til að hafa viðburðinn líka nokkurs konar kveðjutónleika,“ segir Hrund um Sögulok, hátíðina sem hún heldur í dag.

„Með mér verða Jón Þorsteinn Reynisson harmonikkuleikari, Guðrún Hrund Harðardóttir, lágfiðluleikari og Jón Hrói Finnsson, sögumaður. Saman leikum við lög sem tengjast þjóðtrú og sagnarheimi bókanna minna og inn á milli laganna fá hlustendur innlit inn í þjóðsagnarheim þar sem álfar, draugar, skelfilegar kynjaskepnur og skrímsli ráða ríkjum.“

Viðburðurinn er styrktur af Menningarmálanefnd Eyjafjarðarsveitar og Norðurorku.