Snjógleðin við völd hjá ungum sem öldnum
Miklum snjó hefur kyngt niður á Akureyri undanfarna daga og bærinn breyst í sannkallað vetrarríki. Þetta hefur glatt bæði yngstu kynslóðina og skíðafólk en gönguskíðabrautir í Kjarnaskógi voru opnaðar um helgina.
Skíðafærið í Kjarnaskógi hefur verið gott og búið er að troða helstu brautir sem og sleðabrekkuna Hoppsa bomm. Þá er snjóframleiðsla hafin í Hlíðarfjalli. Samkvæmt veðurspánni verður frost út vikuna. Um helgina fer að hlýna og úrkoma er í kortunum.

Fyrsti vetrardagur var á laugardaginn samkvæmt almanakinu og veturinn er svo sannarlega kominn á Akureyri. Skíðabrautir hafa verið troðnar í Kjarnaskógi og þá er snjóframleiðsla hafin í Hlíðarfjalli. Mynd: SNÆ og Skógræktarfélag Eyjafjarðar.
Snjóhús og skúlptúragerð
Snjórinn hefur sannarlega glatt yngstu kynslóðina sem hefur verið dugleg að fara út að leika en víða má sjá snjólistaverk í görðum. Á horni Hamarstígs og Helgamagrastrætis er t.d. að finna glæsilegt snjóhús og rennibraut sem Hrafnkell Elvarsson reisti um helgina ásamt dætrum sínum Móeyju, 5 ára, og Ylfu, 3 ára. „Það var bara rokið út um leið og snjórinn kom,“ segir Hrafnkell og hlær. „Stelpurnar vildu ekki bíða neitt. Það var mokað í skafl og hola grafin inn. En svo var snjórinn líka það blautur í byrjun að það var hægt að móta þetta til og búa til skúlptúra,“ segir Hrafnkell og vísar þar í vel mótaða kanínu sem trónir yfir innganginum í snjóhúsið.

Það styttist í jólin og þegar snjórinn er kominn er tilvalið að fara að huga að útiskreytingunum.
Betra að fá mikinn snjó en mörg hret
Í ljós kemur að Hrafnkell er vanur að fagna snjónum með listfengi. „Við gerum alltaf eitthvað þegar fyrsti snjórinn kemur; snjóhús, kanínur, ljón eða rennibrautir. Þetta verður alltaf betra og betra með hverju ári hjá okkur,“ segir Hrafnkell en í ljós kemur að hann er myndlistarmaður og sköpun því hans ær og kýr. „Ég vinn við fasteignaumsjón hjá Skálabrekku en er líka í myndlistinni,“ útskýrir hann en þess má geta að um þessar mundir er hann að sýna verk sín í Sparisjóði Höfðhverfinga við Glerárgötu. Aðspurður hvort honum finnist allur þessi snjór vera of mikið af því góða segir hann að hann vilji frekar alvöru vetur heldur en eitthvað hálfkák. „Það er best að snjórinn komi bara allur í einu, frekar en fimm haustlægðir og smá hret.“

Hrafnkell aðstoðar eldri dóttur sína upp á þotudiskinn. Nágranninn, Hekla, 7 ára, fylgist með.