Fara í efni
Fréttir

Smit í Valsárskóla og forsetinn í smitgát

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, á Safnasafninu á Svalbarðsströnd, þar sem hann hitti börn úr Valsárskóla í vikunni sem leið. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Covid-smit hafa greinst hjá nemendum í Valsárskóla á Svalbarðsströnd. Skólinn verður lokaður þessa viku og smitið hefur einnig áhrif á störf forseta Íslands, sem hitti börn úr skólanum síðastliðinn miðvikudag.

„Við höfum ákveðið, í samráði við rakningarteymi að grípa til þeirra aðgerða sem þarf til að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að hefta frekari útbreiðslu smits í samfélaginu,“ segir á vef Svalbarðarstrandarhrepps. Af þessum sökum verður skólanum lokað alla þessa viku.

„Við náum vonandi að komast fyrir þetta smit með þessum aðgerðum og höfum óskað eftir því við foreldra að börn sæki ekki íþróttaæfingar eða félagsstarf á Akureyri á meðan smit eru að ganga yfir hér og á Akureyri,“ segir á vefnum.

Forsetinn í smitgát

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, er kominn í smitgát vegna smitsins í Valsárskóla. Hann þarf ekki í sóttkví en í smitgát er mikilvægt að sýna aðgát og gæta sérstaklega vel að persónubundnum sóttvörnum.

„Ungmenni norðanlands hafa greinst með Covid-19 að undanförnu. Í þeim hópi eru nemendur úr Valsárskóla á Svalbarðsströnd sem ég heimsótti á miðvikudaginn var og þarf ég því að vera í smitgát næstu daga,“ skrifar forsetinn á Facebook síðu embættisins í morgun. „Ég sendi krökkunum nyrðra hlýjar kveðjur, þakka aftur fyrir góðar móttökur og óska þeim, sem hafa smitast af veirunni, góðs bata. Einhverjum fundum og viðburðum þarf ég að fresta en við finnum lausnir á því.“

  • Hvað er smitgát? Hér er svarið við því.