Smári verður til við sameiningu sparisjóða

Stjórnir Sparisjóðs Höfðhverfinga hf. og Sparisjóðs Strandamanna hf. hafa undirritað samrunaáætlun um sameiningu sjóðanna en hún tekur mið af stöðu sjóðanna í upphafi árs. Sameinaður sjóður mun heita Smári sparisjóður hf. en hann mun markaðsetja sig áfram undir merkjum Sparisjóðanna.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá sparisjóðunum tveimur.
Samhliða samrunaáætluninni voru undirritaðir samningar við KEA sem tryggja sameinuðum sjóði aukið hlutafé til vaxtar en það er eitt meginmarkmiða með sameiningu sjóðanna.
Jóhann Ingólfsson stjórnarformaður Sparisjóðs Höfðhverfinga hf. segist mjög ánægður með þessa niðurstöðu. „Með þessu eflast þessir sjóðir mjög mikið og hafa aukna getu til að þjónusta sín nærsvæði enn betur en þeir hafa gert til þessa. Þetta styrkir líka heildarumgjörð þeirra sparsjóða sem eru starfandi en þeir verða þá þrír og allir svipaðir að stærð. Við tekur mjög spennandi verkefni við það að leiða saman þessi rótgrónu fyrirtæki og sækja fram,“ er haft eftir Jóhanni í tilkynningunni.
Þar segir að fjárhagsstaða sameinaðs sjóðs verði mjög traust, hann verði með hátt eiginfjárhlutfall og sterka lausafjárstöðu og því vel í stakk búinn til þess að stækka efnahagsreikning sinn töluvert á næstu misserum. „Sjóðurinn mun leggja ríka áherslu á að þjónusta vel sín starfssvæði í Eyjafirði og á Ströndum líkt og þeir sjóðir sem eru að sameinast hafa gert frá upphafi. Samtals eiga sjóðirnir 280 ára samfellda rekstrarsögu.“
Hluthafafundir sjóðanna þar sem samrunaáætlunin verður til afgreiðslu verða haldnir síðsumars.
„Mikil tækifæri eru í sameiningu þessara sjóða. Sameinaður sparisjóður verður fjárhaglega sterkur og enn betur í stakk búinn til þess að styða við nærsamfélagið og sækja fram. Áfram verður unnið að auknu samstarfi sparisjóða í gegnum Samband Íslenskra Sparisjóða. Framundan eru krefjandi verkefni við samþættingu sjóðanna og vöxt til framtíðar,“ segir Víðir Álfgeir Sigurðarson stjórnarformaður Sparisjóðs Strandamanna hf. í áðurnefndri tilkynningu.