Slógu í tóma potta í Hungurgöngu

Stór hópur fólks kom saman við menningarhúsið Hof á Akureyri í dag til þess að vekja athygli á hryllilegu ástandi á Gaza ströndinni í Palestínu og í því skyni að mótmæla aðgerðarleysi ríkisstjórnar Íslands, og alþjóðasamfélagins ef að líkum lætur.
Félagið Ísland - Palestína gekkst í dag fyrir Hungurgöngu í Reykjavík, þar sem gengið var með tóma potta í þögn frá Hlemmi að Stjórnarráði, þar sem slá átti í pottana í 21 mínútu. „Í 21 mánuð hefur ríkisstjórn Íslands haft tækifæri til að bregðast við þjóðarmorðinu á Gaza en ekki gert neitt til stöðva það og með aðgerðaleysi sínu gert okkur samsek,“ segir á vef félagsins.
Á Akureyri var viðburðurinn einnig kallaður Hungurganga þótt ekki væri gengið frá Hofi heldur stóð hópurinn og sló í tóma potta.