Sláandi innsýn í þjáningar fólksins

Óskar Þór Halldórsson, blaðamaður og rithöfundur, hefur skrifað bók um Akureyrarveikina, faraldur sem gekk yfir Akureyri og breiddist þaðan út um landið veturinn 1948-1949. Akureyrarveikin fór aftur á kreik veturinn 1955-1956 á Vestfjörðum, aðallega á Patreksfirði og Barðaströnd, og í Þistilfirði, og á báðum landshornum varð mikill og alvarlegur faraldur. Bókin kemur út á föstudaginn, á afmælisdegi Akureyrar.
„Í það heila var þetta miklu stærri og víðtækari faraldur en ég hafði áttað mig á og afleiðingarnar voru alvarlegar. Þó lést enginn úr Akureyrarveikinni en margir þeirra sem veiktust náðu sér aldrei að fullu,“ segir Óskar Þór. „Sumir þeirra sem veiktust misstu máttinn í útlimum. Flestir náðu honum að mestu til baka en þó ekki allir. Fólk var rúmfast svo mánuðum skipti, það þjáðist af síþreytu, veikin hafði áhrif á tilfinningar fólks, verkirnir í öllum líkamanum voru gríðarlegir og svo mætti lengi telja.“
Jóna Kristín Sigurðardóttir sem býr í Reykjavík er ein þeirra fjölmörgu sem segja sögur í bókinni af hinum miklu og alvarlegu veikindum í Akureyrarveikinni. Á myndinni til vinstri er hún með móður sinni, Svanbjörgu Baldvinsdóttur. Fjölskyldan bjó í Grundargötu 7 á Akureyri.
Spurður hvernig það kom til að hann ákvað að skrifa bókina, segir Óskar Þór: „Fyrir rúmum tveimur árum, 6. maí 2023, sat ég áhugavert málþing á Amtsbókasafninu um Akureyrarveikina, í tilefni af því að þá voru liðin 75 ár frá faraldrinum á Akureyri. Á málþinginu kom eitt og annað athyglisvert fram sem ég hugsaði með mér að þyrfti að skrásetja og varðveita áður en það yrði um seinan. Ég tók sem sagt um það ákvörðun á Amtsbókasafninu að skrifa þessa bók og strax daginn eftir hóf ég heimildaöflun. Þegar ég er nú kominn yfir marklínuna get ég get ekki annað en verið sáttur við útkomuna.“
Víða leitað fanga
Svarfdælasýsl forlag gefur bókina næstkomandi föstudag, 29. ágúst – á afmælisdegi Akureyrar, sem fyrr segir. Bókin verður kynnt í útgáfuhófi þann dag, sem jafnframt er viðburður á Akureyrarvöku, kl. 17:00 í Kvosinni í Menntaskólanum á Akureyri og er öllum áhugasömum boðið að koma þangað. Auk kynningar höfundar á bókinni taka til máls Friðbjörn Sigurðsson læknir við Akureyrarklíníkina, Kristín Sigurðardóttir læknir í Reykjavík, Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri og Kristín Sóley Sigursveinsdóttir.
„Ég leitaði heimilda víða en komst fljótlega að raun um að það er ekki til mikið af skriflegum upplýsingum. Það fyllti þó umtalsvert upp í myndina þegar ég fékk aðgang að gögnum frá landlæknisembættinu frá þessum tíma sem varðveitt eru á Þjóðskjalasafni,“ segir Óskar Þór, „en viðtöl mín við fjölda fólks út um allt land gerðu gæfumuninn. Þessar persónulegu frásagnir fólks sem veiktist og afkomenda fólks sem fékk veikina gefa mjög góða og oft og tíðum sláandi innsýn í þær þjáningar sem fólk sem veiktist af Akureyrarveikinni mátti þola.“
Akureyri sumarið 1947 – rösku ári áður en faraldur Akureyrarveikinnar braust út. Mynd: Guðmundur Bergmann Jónsson.
Óskar Þór segir að enn þann dag í dag sé ekki vitað með vissu hvers konar veiki þetta var. „Lengi vel var talið að um mænuveiki væri að ræða en rannsóknir í Bandaríkjunum leiddu í ljós að svo var ekki. Þessar rannsóknir eða greiningar á sýnum úr sjúklingum á Akureyri í janúar 1949 gátu hins vegar ekki kveðið upp úr um hvaða önnur veiki þetta var en vísindamenn dagsins í dag leiða líkur að því að þetta hafi verið einhvers konar veirusýking. Vegna þess að ekki var unnt að greina veikina var farið að kalla hana Akureyrarveikina, vegna mikils faraldurs á Akureyri. Í það heila má ætla að í það minnsta eitt þúsund manns á Akureyri hafi veikst af Akureyrarveikinni eða um 15% bæjarbúa. Mestur var faraldurinn frá nóvember 1948 til janúar 1949 en heita má að hann hafi verið genginn yfir í mars 1949.“
Þöggun – læknaskýrslur falsaðar
Þrátt fyrir nafnið barst veikin frá Akureyri um allt land, m.a. til Ísafjarðar, í Vestur-Húnavatnssýslu, Skagafjörð, austur í Suður-Þingeyjarsýslu, til Reykjavíkur og víðar. Sett var á samkomubann, m.a. á Akureyri og Ísafirði, og fyrirskipað var samgöngubann við utanverðan Eyjafjörð um tíma til þess að hefta útbreiðslu veikinnar frá Akureyri.
„Í það heila var þetta miklu stærri og víðtækari faraldur en ég hafði áttað mig á og afleiðingarnar voru alvarlegar. Þó lést enginn úr Akureyrarveikinni en margir þeirra sem veiktust náðu sér aldrei að fullu. Sumir þeirra sem veiktust misstu máttinn í útlimum. Flestir náðu honum að mestu til baka en þó ekki allir. Fólk var rúmfast svo mánuðum skipti, það þjáðist af síþreytu, veikin hafði áhrif á tilfinningar fólks, verkirnir í öllum líkamanum voru gríðarlegir og svo mætti lengi telja,“ segir Óskar Þór.
Ætla má að allt að eitt þúsund manns eða um 15% Akureyringa hafi veikst af Akureyrarveikinni. Samkomubann var í bænum svo vikum skipti og um tíma var fólki óheimilt að fara frá Akureyri og út með Eyjafirði vestanverðum til þess að fyrirbyggja að veikin til fólks í Svarfdælalæknishéraði. Mynd: Guðmundur Bergmann Jónsson.
Ákveðin þöggun ríkti um veikina, „svo undarlegt sem það var,“ segir Óskar Þór, „ekki bara á Akureyri heldur til dæmis í Reykjavík þar sem læknar bókstaflega vísvitandi fölsuðu læknaskýrslur í þeim tilgangi að fyrirbyggja hræðslu fólks við faraldur. Í stað þess að greina fólk með Akureyrarveikina skráðu Reykjavíkurlæknar veikindatilfellin sem vírusveiki, sem enginn vissi hvað var. Þetta upplýsti landlæknir nokkrum árum eftir faraldurinn 1948-1949.“
ME og alvarleg eftirköst COVID
Hann segir að þessi saga sé umtalsvert stærri og teygi sig víðar en hann hefði fyrirfram áttað sig á. Og hún eigi sannarlega erindi í dag því í ljós hafi komið að einkenni fólks sem veiktist af Akureyrarveikinni séu um margt keimlík einkennum langvarandi og alvarlegra eftirkasta COVID 19 sem milljónir manna út um allan heim glími við.
„Ég hafði ekki áttað mig á þessum miklu og greinilegu tengslum fyrr en ég fór að lesa mér nánar til um þetta. Líkindin eru sláandi og augljós og því er það svo að sjónir vísindafólks hafa í auknum mæli farið að beinast að Akureyrarveikinni í kjölfarið á COVID-faraldrinum og þeim alvarlegu afleiðingum sem sú veira hefur haft á heilsu fjölda fólks hér á landi og út um allan heim. Þumalputtareglan er sú að ef fólk sem glímir við þessi alvarlegu eftirköst COVID nær engum bata eftir hálft ár frá veikindum er það greint með ME-sjúkdóminn. Miklu fleiri eru að glíma við þennan sjúkdóm en margur hyggur því þetta er faldi sjúklingahópurinn í samfélaginu, m.a. af völdum COVID, einkirningasóttar, svínaflensu eða af öðrum ástæðum. Í síðasta hluta bókarinnar beini ég sjónum að þessum tengslum Akureyrarveikinnar, langvarandi eftirkasta COVID og ME og fólk sem þjáist af ME-sjúkdómnum segir sláandi reynslusögur úr sínu lífi.“
Í þrjá sólarhringa var óttast um mig
Í bókinni um Akureyrarveikina eru fjölmargar reynslusögur fólks, m.a. frá Akureyri í faraldrinum 1948-1949 og Vestfjörðum og Þistilfirði 1955-1956. Grípum fyrst niður í frásögn Jónu Kristínar Sigurðardóttur (f. 1940), sem bjó með foreldrum sínum og systur í Grundargötu 7 á Akureyri. Hún var átta ára gömul þegar hún veiktist af Akureyrarveikinni:
„Ég lamaðist ekki en í um þrjá sólarhringa var óttast um mig. Árni Guðmundsson læknir kom á hverjum degi og fylgdist vel með mér. Hann var afskaplega yfirvegaður og ljúfur maður. Ég fann mikið til í fótum og var lengi hölt eftir veikindin. Ég fór ekki í skóla það sem eftir var af skólaárinu 1948-1949 en ég man að einn af kennurunum við Barnaskólann kom og lét mig hafa námsefni og þannig gat ég fylgt bekkjarsystkinum mínum eftir. Ég fór síðan aftur í skólann haustið 1949. Ég var rúmliggjandi í þó nokkuð langan tíma og vikum saman mátti ég ekki fara út. Fyrstu veikindadagana var ég með mikla verki í öllum líkamanum. Ég man að vegna þeirra, einkum verkja í fótunum, átti ég erfitt með nætursvefn og grét mikið. Pabbi færði sig í annað herbergi og ég lá í hjónarúminu við hlið mömmu. Ég hugsa að hún hafi óttast lömun hjá mér en hún lét það ekki í ljós. Þegar ég hugsa til baka hlýtur þetta að hafa verið mömmu mjög erfitt því ég gæti trúað að hún hafi ekki sofið mikið þegar líðan mín var sem verst. Eftir að ég komst á fætur var ég töluverðan tíma að ná fyrri styrk. Sérstaklega var vinstri fóturinn mér erfiður. Það voru miklir verkir í honum og ég fann til þegar ég gekk.“
Hjónin á Gunnarstöðum í Þistilfirði, Sigfús A. Jóhannsson og Sigríður Jóhannesdóttir, veiktust bæði af Akureyrarveikinni í febrúar 1956.
Skelfilegur tími
Kristín Sigfúsdóttir á Akureyri (f. 1949) rifjar upp í bókinni alvarleg veikindi foreldra sinna á Gunnarsstöðum í Þistilfirði snemma árs 1956. Grípum niður í frásögn Kristínar:
„Þetta var skelfilega erfiður tími. Ég er fædd í mars og var því rétt tæplega sjö ára gömul þegar foreldrar mínir veiktust. Þau lágu í herbergi á efri hæðinni og hlutverk mitt var að vera sendill og hendast á milli hæða með koppa og kirnur, kaffi og vatn. Það kom líka oft í minn hlut að gefa Steingrími bróður, sem þá var um sex mánaða, pela og svæfa hann enda var mamma ófær um að vera með hann þegar hún var hvað veikust. En mest mæddi þó á Guðbjörgu móðursystur sem mjólkaði, eldaði og sá um okkur öll.
Pabbi og mamma voru með mikinn hita og ég man að þau voru mjög þyrst. Pabba leið sérstaklega illa. Hann var með mikla verki og missti alveg máttinn í öðrum fætinum og gat ekki lyft honum. Ég óttaðist að hann yrði sendur á Landspítalann og myndi aldrei komast aftur á fætur. Það sat í mér að sjálf hafði ég legið í nokkra mánuði á Landspítalanum þegar ég var á fimmta ári.
Þegar pabbi og mamma veiktust hittist svo á að Jóhannes móðurafi var í heimsóknum hjá sínu fólki í Reykjavík. Því var leitað til Emils Þórðarsonar, eða Bulla eins og við kölluðum hann alltaf, sem var mikill heimilisvinur okkar, um að koma og sjá um skepnurnar í þessum veikindum. Bulli fékk frí úr vinnu sinni hjá Kaupfélagi Langnesinga á Þórshöfn og bjó hjá okkur á Gunnarsstöðum þennan tíma. Að nokkrum dögum liðnum veiktist hann líka og var rúmliggjandi í vesturherberginu. Því voru sjúklingarnir nú orðnir þrír á heimilinu. Sem betur fer varð Bulli ekki mikið veikur en ég man þó að hann svitnaði heil ósköp og ég færði honum kalda bakstra og handklæði til þess að strjúka svitann af sér. Í veikindum Bulla kom Arnar í Hvammi, frændi okkar, og sá um gegningar.“