Fara í efni
Fréttir

Skúli verkefnastjóri hjá fjölmiðlanefnd

Skúli Geirdal - nýr verkefnastjóri hjá fjölmiðlanefnd.
Skúli Geirdal - nýr verkefnastjóri hjá fjölmiðlanefnd.

Skúli Bragi Geirdal, sem margir muna eftir af sjónvarpsstöðinni N4, hefur verið ráðinn verkefnastjóri hjá fjölmiðlanefnd. Um er að ræða nýja stöðu hjá stofnuninni og mun Skúli annast verkefni sem tengjast miðlalæsi og gerð nýrrar miðla- og upplýsingalæsisstefnu, ásamt framkvæmdaáætlun. Hann verður annars vegar í stefnumótunarvinnu og hins vegar í verkefnisstjórnun til að fylgja stefnumálum eftir. „Verkefnin munu miða að því að ná til fólks á öllum aldri til að auka færni þess í að nota samfélagsmiðla og leitarvélar og vera gagnrýnið á það hvaðan upplýsingar koma,“ segir í tilkynningu frá nefndinni.

„Skúli er fjölmiðlafræðingur að mennt, ásamt því að hafa stundað nám við grafíska hönnun í Myndlistarskólanum á Akureyri. Hann hefur starfað við dagskrárgerð, ritstjórn og hönnun hjá N4 frá árinu 2018 og kom þar að gerð um 400 sjónvarpsþátta, ásamt því að taka virkan þátt í stefnumótun á miðlinum. Þá hefur hann einnig annast stundarkennnslu í fjölmiðlafræðideild Háskólans á Akureyri, starfað sjálfstætt við hönnun og komið að nýsköpunar- og frumkvöðlastarfi á ýmsum sviðum.“

Fyrstu verkefni í starfi verkefnastjóra miðlalæsis munu snúa að úrvinnslu upplýsinga úr víðtækri spurningakönnun Maskínu fyrir fjölmiðlanefnd sem var framkvæmd í febrúar og mars 2021. Svarendur voru alls staðar að af landinu,15 ára og eldri. Niðurstöðurnar verða gerðar aðgengilegar í nokkrum hlutum. Í fyrsta hlutanum er fjallað um fjölmiðlanotkun - nánar hér um þann hluta.

Í öðrum hlutanum verður fjallað um hversu algengt það er að almenningur sjái falsfréttir og upplýsingaóreiðu á ólíkum miðlum og færni hans til að bera kennsl á slíkt efni. Í þriðja hlutanum verður fjallað um haturstal, neteinelti, hótanir og friðhelgi einkalífs. Í fjórða hluta verður síðan fjallað um mörk ritstjórnarefnis og auglýsinga og hvort almenningur þekki muninn á þessu tvennu. Netnotkun verður umfjöllunarefni fimmta hluta skýrslunnar. Þar verður m.a. fjallað um hversu löngum tíma fólk ver á netinu, um notkun tölvuleikja, um kaup á netinu og hvort netnotkun hafi áhrif á félagsleg samskipti fólks.

Fjölmiðlanefnd