Fara í efni
Fréttir

Skúli Bragi sviðsstjóri Netöryggismiðstöðvar

Akureyringurinn Skúli Bragi Geirdal, sérfræðingur í miðlalæsi hjá Fjölmiðlanefnd, er nýr sviðsstjóri SAFT - Netöryggismiðstöðvar Íslands (Safer Internet Center á Íslandi). 

Umsjón með framkvæmd SAFT-verkefnisins færðist um áramót frá Heimili og skóla – landssamtökum foreldra til Fjölmiðlanefndar. 

SAFT er vakningarátak um örugga tækni- og miðlanotkun á Íslandi, segir í tilkynningu frá Fjölmiðlanefnd. Verkefnið hefur verið styrkt og unnið í samstarfi við styrkjaáætlanir Evrópusambandsins tengdum netöryggi og vernd barna á neti. Í dag gegnir SAFT hlutverki Netöryggismiðstöðvar eða Safer Internet Center á Íslandi, en slíkar miðstöðvar eru starfræktar í flestum Evrópuríkjum.

Skúli er fjölmiðlafræðingur að mennt, ásamt því að hafa stundað nám í grafískri hönnun við Myndlistarskólann á Akureyri. Síðastliðin þrjú ár hefur hann verið verkefnastjóri miðlalæsis hjá Fjölmiðlanefnd og leitt þar mörg verkefni á sviði upplýsinga- og miðlalæsis. Einnig hefur hann starfað sem stundakennari í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri frá árinu 2021. Áður starfaði Skúli við dagskrárgerð og ritstjórn hjá N4 frá árinu 2018 og kom þar að gerð um 400 sjónvarpsþátta. Þá hefur hann einnig starfað sjálfstætt við hönnun og komið að nýsköpunar- og frumkvöðlastarfi á ýmsum sviðum.

„Þegar við hugsum um netöryggi er fyrsta hugsunin yfirleitt að tryggja innviði og þar hefur áherslan hér á landi verið að mestu leyti hingað til. En ekki má gleyma að upplýsinga- og miðlalæsi er algjör lykilhæfni þegar hugað er að netöryggi almennings. Upplýsingaóreiða og falsfréttir hefur engin landamæri. Því er mikilvægt að við bregðumst við með fyrirbyggjandi aðgerðum í formi fræðslu og valdeflingar því netöryggi snýst ekki aðeins um að vernda innviði heldur einnig fólk á öllum aldri. Þjóðaröryggi, lýðræði og lýðheilsa eru undir og því er þetta málaflokkur sem hefur snertiflöt við öll ráðuneyti og þvert á pólitík. Samstaða og samstarf er því algjört lykilatriði til þess að ná árangri á þessu sviði,“ segir Skúli í tilkynningu frá Fjölmiðlanefnd.

HVAÐ ER SAFT?

  • Fræðslustarf SAFT – Netöryggismiðstöðvar Íslands snýr að netöryggi og að efla jákvæða og uppbyggilega netnotkun. Boðið er upp á fræðslu fyrir börn, ungmenni, foreldra og fagfólk og er fræðslan aðlöguð eftir hópum. Fræðslan er í dag fjármögnun í gegnum menningar- og viðskiptaráðuneytið.
  • „Eftirspurnin frá skólum í landinu eftir fræðslu um miðlalæsi og netöryggi hefur aukist mikið síðustu ár. Í fyrra lögðum við af stað í fræðsluherferð um landið í samstarfi við Persónuvernd með Netumferðarskólann sem er hluti af aðgerðaráætlun stjórnvalda í netöryggi. Fræðslan er blanda af fyrirlestri, hópverkefni og samtali við börn og ungmenni í 4.-7. bekk þar sem áherslan er á vitundarvakningu, hugtakaskilning og valdeflingu,“ segir Skúli Bragi.
  •  „Nú hafa um 3500 börn í 50 skólum í 30 mismunandi sveitarfélögum tekið þátt. Fyrir unglingastig held ég fræðsluerindi sem nefnist Algóritminn sem elur mig upp og þar hef ég rætt við um 3000 ungmenni síðastliðið ár. Upplýsinga- og miðlalæsi er lykilhæfni í nútíma samfélagi og því ljóst að ekki er nóg að vinna þessa fræðslu sem tímabundið átaksverkefni,“ segir hann.

Umfjöllunarefni sem hægt er að óska eftir í fræðslu SAFT - Netöryggismiðstöðvar Íslands:

  • Upplýsinga- og miðlalæsi - Að vera læs á mismunandi miðla og upplýsingaveitur.
  • Virkni algóritma og áhrif þeirra á notkun okkar á stafrænum tækjum.
  • Gervigreind – Læsi á myndir og upplýsingar sem gervigreindin býr til.
  • Stafrænt fótspor og söfnun persónuupplýsinga.
  • Samfélagsmiðlar, skjárinn og líðan.
  • Skjáþreyta – Hvernig síminn kallar á athygli okkar?
  • Skjátími – Nýta tímann frekar en drepa hann.
  • Samskipti á netinu, áreiti og áreitni.
  • Skautun og upplýsingaóreiða í íslensku samfélagi.
  • Fjölmiðlanotkun Íslendinga – hvernig nálgumst við fréttir í dag?
  • Aldursmerkingar á öppum og samfélagsmiðlum.
  • Áhrif tækni á þjóðaröryggi, lýðræði og lýðheilsu.