Fara í efni
Fréttir

Skólar á Dalvík lokaðir vegna Covid-19

Bæði Dalvíkurskóli og tónlistarskólinn í bænum eru lokaðir vegna Covid-19, eftir að tveir starfsmenn þess fyrrnefnda og einn nemandi í 1. bekk greindust jákvæðir í heimaprófi.

Allir starfsmenn Dalvíkurskóla fara í PCR-próf í dag, auk nemenda í 1. og 7. bekk skólans. Með PCR-prófinu verður líka hægt að staðfesta þau smit sem þegar hafa greinst í heimaprófum, að því er segir á heimasíðu sveitarfélagsins í morgun.

„Við viljum biðja foreldra nemenda í skólanum að vera vel vakandi fyrir upplýsingum sem kunna að berast frá skólastjórnendum og kennurum bæði í rafpósti og á facebook síðum árganganna. Nú er því nauðsynlegt að hvert og eitt okkar geri það sem hægt er til að hefta frekari útbreiðslu veirunnar,“ segir á vefnum.

Á dvalarheimilinu Dalbæ er lokað fyrir gesti og utanaðkomandi framyfir helgi í ljósi þess að smit hafa greinst í nærsamfélaginu

Á vef bæjarins er birtur eftirfarandi texti frá Almannavörnum sem barst í morgun:

„Hvet alla þarna á svæðinu að halda sig til hlés á meðan verið er að ná utan um þetta, leggja enn meiri áherslu á smitvarnir og þar sem menn eru með hólfaskiptingar að árétta það við sitt starfsfólk svo að hólfaskiptingin virki ef til kemur smit innan einingar.

Þá þarf að tryggja að allt íþrótta og félagsstarf sé í fríi á meðan náð er utan um þetta.

Þá er gott að hafa í huga að börn og unglingar séu ekki að sækja æfingar út fyrir sitt svæði.“