Fara í efni
Mannlíf

Skoðunarhátíð hjá eigendum fornbíla

Margt skemmtilegt getur leynst undir húddinu! Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson
Margt skemmtilegt getur leynst undir húddinu! Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Eigendur fornbíla á Akureyri hittast reglulega, skoða fegurðina sem býr í bílunum, spá og spekúlera. Segja sögur. Margir nutu þess síðastliðið sumar þegar félagar í fornbíladeild Bílaklúbbbs Akureyrar lögðu drossíum sínum, jeppum og öðrum djásnum, hvað eftir annað við menningarhúsið Hof í kvöldkyrrðinni.

Einu sinni á ári mætir hópurinn svo í lögbundna bifreiðaskoðun og vitaskuld þótti kjörið að nýta síðasta laugardag í verkefnið – sjálfan kjördaginn. Allt var með felldu; sól skein í heiði, hver glæsilegi eldri borgarinn af öðrum rann í gegn hjá Frumherja og síðan var grillað fyrir gesti og gangandi. Grillið var að sjálfsögðu í við hæfi við tilefnið; heitt var í kolunum undir húddinu í þeirri gömlu skruggukerru þótt engin væri vélin.