Fara í efni
Fréttir

Sjúkraflugvél snéri frá Reykjavík – „Nú vantaði neyðarbrautina“

Sjúkraflugvél Mýflugs með tvo sjúklinga frá Egilsstöðum varð að snúa frá Reykjavíkurflugvelli í dag. Ekki var hægt að lenda vegna mikils hliðarvinds.

„Nú vantaði neyðarbrautina,“ sagði Leifur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Mýflugs, við Akureyri.net í kvöld, allt annað en ánægður. „Vélin hefði getað lent hefði ekki verið búið að loka neyðarbrautinni.“

Neyðarbrautinni, sem svo var kölluð, var lokað fyrir nokkrum árum vegna uppbyggingar á landi Knattspyrnufélagsins Vals að Hlíðarenda. Hún lá frá suðvestri til norðausturs og var notuð þegar veðurskilyrði komu í veg fyrir að hægt væri að lenda á hinum brautunum tveimur. 

Getur skipt sköpum

„Þegar lagt var af stað frá Egilsstöðum var fært í Reykjavík en veðrið versnaði þegar vélin var á leiðinni. Þeir gerðu aðflug í Reykjavík en hættu við. Hliðarvindur var kominn út fyrir mörk vélarinnar og ókyrrð var líka mjög mikil. Flugstjórinn mat stöðuna þannig að ekki væri verjandi að reyna lendingu,“ sagði Leifur.

„Þetta er auðvitað mjög alvarlegt,“ sagði Leifur um það sem gerðist í dag. „Þetta gerist ekki oft en það gerist. Og þegar það gerist getur það skipt sköpum; á það var marg ítrekað bent en forsvarsmenn borgarinnar, borgarstjóri og hans kumpánar, stungu höfðinu í sandinn eins og strúturinn. Þeir hafa sennilega haldið að enginn sæi þá. Vitið er ekki meira en guð gefur,“ sagði Leifur og bætti við: „Ég kalla þetta dag Dags B. Eggertssonar borgarstjóra.“ 

Neyðarbrautin sem svo hefur verið kölluð, og búið er að loka, liggur (eða lá) frá norðaustri til suðvesturs á Reykjavíkurflugvelli. Hún var notuð þegar skilyrði komu í veg fyrir að vélar gætu lent á öðrum brautum.

Útkallið til Egilsstaða var af næst hæsta forgangi, að sögn Leifs. Auk þeirra tvegga sem átti að flytja að austan á Landspítalann í Reykjavík þurfti sjúklingur frá Akureyri einnig að komast þangað en komst hvergi. Vélin sem varð að hverfa frá Reykjavíkurflugvelli fór til Akureyrar svo allir þrír, sem til stóð að flytja á Landspítalann, eru nú á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Fjórði sjúklingurinn, sem Mýflug átti að flytja til Reykjavíkur í dag, var á Hornafirði. Svo fór að þyrla Landhelgisgærlunnar sótti hann en var lengi á leiðinni vegna hvassviðris.

Leifur segir hliðarvindinn sem hamlaði lendingu á Reykjavíkurflugvelli í dag beina afleiðingu stórhýsa sem reist hafa verið í Vatnsmýrinni á síðustu árum. Hann nefndi Öskju og hús Íslenskrar erfðagreiningar. Hefði margnefnd neyðarbraut hins vegar enn verið í notkun hefðu þau hús ekki haft nein áhrif og allir sjúklingarnir komist á áfangastað.

Nokkur ár eru síðan sjúkraflugvél gat ekki lent í Reykjavík vegna veðurs, að sögn Leifs. „Það gerist ekki oft eins og ég sagði áðan, sem betur fer,“ sagði Leifur en ítrekaði að það gæti skipt sköpum þegar þessar aðstæður sköpuðust. Þessi vegna hefði verið glapræði að loka neyðarbrautinni á sínum tíma.