Fara í efni
Menning

Sjálfulagið – Best fyrir enn komin á kreik

Brynjar Davíðsson, Haukur Pálmason, Bergþór Rúnar Friðriksson, Pétur Guðjónsson og Elmar Eiríksson.
Hljómsveitin Best fyrir er komin á stjá eftir langt hlé og sendi á dögunum frá sér nýtt lag – Sjálfulagið. Stefnt er að útgáfu fleiri laga á næstunni í tilefni þess að 30 ár eru síðan hljómsveitin var stofnuð.
 
Nýju lögin lögin verða á þriðju plötu sveitarinnar sem er væntanleg en hefur ekki enn fengið nafn. „Gárungarnir hafa lagt til nöfnin „Best fyrir … síðasti neysludagur á síðustu öld“ og „Best fyrir … fimmtugt“ þar sem við stofnendurnir fögnum báðir hálfrar aldar afmæli á árinu,“ segir Elmar Sindri Eiríksson, en hann og Brynjar Davíðsson stofnuðu Best fyrir á sínum tíma.
 
Elmar Sindri segir að í nýja laginu taki Best fyrir ofan fyrir sjálfufíklum landsins og hvetji alla til að deila af sér sjálfsmyndum – sálfum – í alls kyns mismunandi ástandi. „Loksins er komið lag fyrir okkur öll sem liggjum lon og don í símanum!“ segir Elmar.
 
„Gríðarleg vankunnátta!“
 

„Best fyrir var stofnuð í kennaraverkfallinu í janúar 1995 í Þorpinu af grjóthörðum Þórsurum,“ segir Elmar Sindri. Þá hét hljómsveitin „Getuleysi“, sem var lýsandi fyrir færni meðlima, segir hann. Bandið samanstóð af Brynjari Davíðssyni, trommara,  söngvara og markverði, bassaleikaranum og tengiliðnum Elmari Sindra og gítarleikaranum, söngvaranum og „miðjubuffinu Kristjáni Kristjánssyni – kvikmyndagerðarmanninum Kidda hvíta.“ 

Elmar Sindri segir svo frá: „Af gríðarlegri vankunnáttu var rennt í Dylan-slagarann Lay lady lay og Egó-smellinn Stórir strákar fá raflost. Þar sem ekkert gekk að æfa lögin var nafni hljómsveitarinnar breytt í Vonleysi. En það gerði náttúrlega ekkert til þess að stækka aðdáendahópinn nema síður væri. Nafnið Best fyrir varð síðan fyrir valinu þegar meðlimir reyndu sig á bar- og ballmarkaðnum og á eigin tónsmíðum.“

Jens Ólafsson og Kristján Elí Örnólfsson, sem léku saman í Gimp og Toy Machine, voru í Best fyrir tíma. Mynd: Skapti Hallgrímsson 

Þegar þarna var komið sögu höfðu þrjár kempur bæst við bandið: „Kristján Elí Örnólfsson íþróttaundur og sólógítarleikari úr Gimp og Toy Machine, Elmar Steindórsson trommari og hornamaður og Jens Ólafsson stórskytta, söngvari- og hryngítarleikari í Gimp, Toy Machine og Brain Police,“ segir Elmar, og bætir við: „Vegna allt of mikilli anna við íþróttavafstur með Þór í handbolta og fótbolta skildu leiðir vorið 1997 og Best Fyrir lagðist í dvala. Reyndar reyndu Kristján Elí og Jenni við heimsfrægðina með Toy Machine næstu misserin og gekk vel framan af.“

Árið 2002 dustuðu „útbrunnu knattspyrnukapparnir“ Binni Davíðs og Elmar rykið af Best Fyrir og gáfu út plötuna „Lífið er aðeins ... þessar stundir“ vorið 2003 í samstarfi við Atla Má Rúnarsson markvörð og trymbil Helga og hljóðfæraleikaranna.

Svanasöngur Rúnars Júl

Næst var blásið til sóknar árið 2008. Þá sem áður voru Binni Davíðs og Elmar Eiríks við stýrið. Á augnabliki ... lokar þú augunum kom út árið 2009 og var Best Fyrir þá skipuð stofnendunum tveimur, Binna og Elmari, bassaleikararnum Bergþóri Rúnari Friðrikssyni, trymblinum Sverri Frey Þorleifssyni, harmonikkuleikaranum Hans Friðriki Hilaríusi Guðmundssyni og gítarleikaranum Guðmundi Aðalsteini Pálmasyni. „Á plötunni var gnótt gestasöngvara. Þetta voru Jónína Björk Stefánsdóttir, Matthías Matthíasson, Helgi Þórsson, Rúnar Þór Pétursson og Eyþór Ingi Gunnlaugsson. Rúsínan í pylsuendanum var Rúnar Júlíusson sem söng lagið ,,Ég þrái að lifa”. Lagið reyndist svanasöngur Rúnars,“ segir Elmar.

Best fyrir – 2025 útgáfan, frá vinstri: Brynjar Davíðsson, Pétur Guðjónsson, Elmar Sindri Eiríksson og Bergþór Rúnar Friðriksson.

Þrátt fyrir að vera „löngu útrunnir,“ eins og Elmar orðar það, er Best Fyrir enn á ný komin á stjá og nú með Sjálfulagið, sem fyrr segir. „Sjálfulagið er sett saman í léttu gríni en þó sem smá ádeila á okkur, nútímafólkið, sem höldum í einfeldni sinni að eitthvert fólk bíði þarna hinum megin við skjáinn eftir enn einni sjálfunni stútfullri af misskemmtilegu fylliefni – filter – og skrauti.“

Sjálfan er góð og gild, segir hann, ef fólk þorir að sjálfa sig í öllu mögulegu ástandi eins og texti lagsins greinir frá. „Sjálfið ykkur í drasl eins og þið eruð í ykkar besta standi sem því versta, þá er fjör, ærsl og stuð. Hættið svo að nota enska orðskrípið sem allt of mörg okkar nota enn þegar henda á í eina góða sjálfu.“

Sjálfulagið var tekið upp í Hofi undir styrkri og vinalegri stjórn Hauks Pálmasonar, segir Elmar. Haukur og Best fyrir-liðar leika og syngja. Auk Binna og Elmars er nú í bandinu gítarleikarinn Bergþór Rúnar Friðriksson, sem leikið hefur með sveitunum Amma Dýrunn og Frændgarður Jósefs, og trommarinn Pétur Guðjónsson (N3 plötusnúðar og Óæfðir).

Smellið hér til að hlusta á Sjálfulagið á Spotify