Fara í efni
Íþróttir

Sjaldan fór hann suður, Íslandsbikarinn!

Sigurður Sveinn Sigurðsson, til vinstri, og Andri Már Mikaelsson – nýbakaðir Íslandsmeistarar árið 2016. Sigurður, sem nú er formaður Skautafélags Akureyrar, varð Íslandsmeistari fyrstu 14 árin sem keppt var um titilinn! Andri Már er enn í liði SA. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Íslandsbikarinn í íshokkí karla fer á loft í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld, aðeins spurning hvort það verða heimamenn í SA sem endurheimta titilinn eða Skautafélag Reykjavíkur sem fer með hann aftur suður. SA og SR mætast í oddaleik í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn eða leik gjaldkerans eins og gárungarnir nefna stundum svona leiki, fimmta leik í seríu með fulla höll af stuðningsfólki og klárt að annað liðið lyftir bikarnum í leikslok.

Bæði lið hafa nú unnið tvo leiki í einvíginu, fyrst unnu þau hvort sinn útileikinn, en síðan komu tveir heimasigrar í röð. Það ræðst því í kvöld hvort liðið verður Íslandsmeistari, væntanlega fyrir fullu húsi í Skautahöllinni á Akureyri. Leikurinn hefst kl. 16:45.

Ingvar Þór Jónsson, til vinstri, og Björn Már Jakobsson fagna Íslandsmeistaratilinum árið 2016. Þeir eru báðir enn að. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Leikirnir hingað til:

  • Leikur 1: SA - SR 3-4
  • Leikur 2: SR - SA 4-5
  • Leikur 3: SA - SR 7-1
  • Leikur 4: SR - SA 5-3
  • Í dag: SA - SR kl. 16:45

Íslandsmeistaralið Skautafélags Akureyrar 2011.  Meðal leikmanna er Sigurður Sveinn Sigurðsson, sigursælasti íshokkímaður Íslands og núverandi formaður SA, og nokkrir sem enn eru á fullu með SA. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Núverandi formaður SA vann titilinn 14 fyrstu skiptin

Fyrst var keppt um Íslandsmeistaratitil karla í íshokkí tímabilið 1991-1992 og er þetta í 33. skipti sem deildarkeppnin fer fram, en þó aðeins í 32. skipti sem Íslandsbikarinn fer á loft því mótið var ekki klárað 2020 og ekkert lið krýnt Íslandsmeistari það ár.

SA vann titilinn fyrstu sjö árin sem keppt var um hann, en SR tók hann fyrst 1999 og hélt honum í tvö ár. Akureyri.net er ekki kunnugt um það hvaða einstaklingur eða einstaklingar hafa oftast unnið titilinn, en það er hins vegar áhugaverð staðreynd að núverandi formaður SA, fasteignasalinn Sigurður Sveinn Sigurðsson, var í sigurliðinu fyrstu 14 árin sem keppt var um titilinn. Hann var leikmaður SR árin tvö þegar titillinn fór fyrst suður, 1999 og 2000. Sonur hans, Uni Steinn, er í liði SA sem berst um titilinn í dag.

Andri Már Mikaelsson og Orri Blöndal eftir að SA varð Íslandsmeistari árið 2021. Þeir hafa báðir verið lengi í eldlínunni og stefna að enn einum meistaratitlinum í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Það er hins vegar ekki ólíklegt að tveir gamlir refir í vörn SA-liðsins, Björn Már Jakobsson og Ingvar Þór Jónsson hafi unnið álíka marga titla og Sigurður eða séu í það minnsta að nálgast hann. Þeir tveir eru enn að. Nokkrir fleiri leikmenn af eldri kynslóðinni, eða næstelstu kynslóðinni á eftir Birni og Ingvari, þeir Andri Már Mikaelsson (1990), Orri Blöndal (1990), Andri Freyr Sverrisson (1991), Jóhann Már Leifsson (1993) og Pétur Elvar Sigurðsson (1993), eru væntanlega einnig komnir með eitthvað á annan tuginn af titlum, hafa líklega verið í leikmannahópnum 2008 þegar SA endurheimti bikarinn eftir tveggja ára fjarveru hans frá Akureyri. Andri Freyr vann einnig titilinn með UMFK Esju 2017. 

Íslandsmeistaralið Skautafélags Akureyrar árið 2016. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Íslandsmeistaratitlar karla í íshokkí

Skautafélag Akureyrar hefur oftast orðið Íslandsmeistari í karlaflokki, með 23 Íslandsmeistaratitla. Skautafélag Reykjavíkur kemur næst með sex Íslandsmeistaratitla og þá Björninn og UFMK Esja með einn titil hvort félag. Núverandi titilhafi er Skautafélag Reykjavíkur, en einvígi SR og SA fór einnig í fimm leiki í fyrra og Reykvíkingar unnu í oddaleik á Akureyri. Lítill áhugi er meðal heimamanna á að það gerist aftur. Vonandi endurtekur sagan sig ekki frá fyrstu tveimur skiptunum sem SR vann titilinn, en þá tóku þeir hann tvö ár í röð í bæði skiptin, 1999 og 2000 og svo aftur 2006 og 2007. 

Jóhann Már Leifsson (10) hefur unnið marga Íslandsmeistaratitla með SA. Jóhann, sem verður væntanlega á fullri ferð á svellinu í dag, er hér í úrslitakeppninni vorið 2022. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Skautafélag Akureyrar 1992, 1993, 1994, 1995, 1996, 1997, 1998, 2001, 2002, 2003, 2004, 2005, 2008, 2010, 2011, 2013, 2014, 2015, 2016, 2018, 2019, 2021, 2022, 2024?
Skautafélag Reykjavíkur 1999, 2000, 2006, 2007, 2009, 2023, 2024?
Björninn 2012
UMFK Esja 2017
Keppni hætt 2020

 

Andri Skúlason (26), Ævar Arngrímsson og Orri Blöndal (2) fagna marki Ævars í úrslitakeppninni vorið 2022 þegar SA varð síðast Íslandsmeistari. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Lokatölur úrslitaeinvígjanna síðastliðin sjö ár: 

2023: SR vann SA 3-2
2022: SA vann SR 3-1
2021: SA vann Fjölni 3-0
2020: Mót ekki klárað
2019: SA vann SR 3-0
2018: SA vann UMFK Esju 3-0
2017: UMFK Esja vann SA 3-0

Heimildir: