Fara í efni
Fréttir

Sjáðu hugmyndir um grafreit í Naustaborgum

Allar myndir eru úr drögum að nýjum grafreit sem Landslag ehf. vann fyrir Kirkjugarða Akureyrar.
Allar myndir eru úr drögum að nýjum grafreit sem Landslag ehf. vann fyrir Kirkjugarða Akureyrar.

Gert er ráð fyrir framtíðar grafreit Akureyringa á Naustaborgasvæðinu í samþykktu aðalskipulagi. „Þetta er á svæðinu mitt á milli golfvallarins og Kjarnaskógar, austast í Naustaborgum. Við erum í hugmyndavinnu fyrir deiliskipulag og viljum tenga grafreitinn útivistarsvæðinu því staðreyndin er sú að miklu fleiri lifandi en látnir koma í kirkjugarða. Þetta verður grænt útivistarsvæði og þarna fáum við tækifæri til að skapa mikinn fjölbreytileika; til dæmis verður mögulegt að grafa öskuker inni í skógarbotninum og dreifa ösku,“ segir Smári Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kirkjugarða Akureyringar við Akureyri.net.

Hér fyrir neðan er fjöldi mynda þar sem sjá má þær hugmyndir sem unnið er að. Það eru landslagsarkitektar hjá Landslagi sem vinna að hugmyndunum fyrir Kirkjugarða Akureyrar.

Kirkjugarðar Akureyrar og ráðgjafar hafa ákveðið að heppilegast sé að svæði 1 verði fyrsti áfangi nýja grafreitsins. Allar myndirnar hér að neðan eru af svæði 1, en þau verða alls 5 þegar nýji grafreiturinn verður fullgerður.

Svæðið er um það bil 1,5 km frá núverandi kirkjugarði á Naustahöfða, ríkulega gróið trjám og brotið upp með túnum og stórum klettum sem einkenna svæðið. Það afmarkast af golfvelli Akureyrar til norðurs og Kjarnaskógi til suðurs. Að vestanverðu eru það rætur Súlumýra sem afmarka svæðið og til austurs er stórt ræktarland þar sem fyrirhuguð er íbúabyggð í framtíðinni - ekki þó skv. gildandi aðalskipulagi Akureyrar 2018 til 2030, en líklega eftir 2030.Stór hluti af Naustaborgum er ræktað land eða tún, eða gróðurþekja. Trjárækt hefur verið stunduð á svæðinu og þar er að finna margar tegundir trjágróðurs, algengustu tegundirnar eru greni, lerki og ösp. Þar má líka finna sjálfsáið birki og greni víða.Kirkjugarðar áður fyrr voru gjarnan hring- eða sporöskjulaga. Nokkrir kenningar eru fyrir þessu formi garðanna. Með hringforminu var jafnlöng vegalengd til allra átta frá miðpunkti kirkjunnar, sem þótti mikilvægt. Hringformið var notað sem heildarhugmynd við hönnun svæðisins í Naustaborgum.

Heildarstærð skipulagssvæðis 1, sem er svæðið á þessari mynd, er 5,6 hektarar. Aðalinngangur á svæðið verður frá aðalbílastæðinu þar sem gert er ráð fyrir aðkomutorgi. Grafarsvæðin eru misstór, beggja vegna bílastæðanna, og heildstætt stígakerfi liðast um allan garðinn.

Aðkoma að svæðinu fyrir gangandi er mjög góð úr öllum áttum með núverandi og nýjum stígum. Aðkoma akandi verður úr austri frá Hagahverfi. Aðalbílastæðin, 38 alls, eru miðsvæðis inni í garðinum og því verða stuttar gönguleiðir til allra svæða garðsins og þannig gott aðgengi fyrir alla. Þá er gert ráð fyrir 20 bílastæðum meðfram austurhliðinni og auðvelt verður að fjölga þeim eftir þörfum.

Heildstætt stígakerfi verður um skipulagssvæðið, aðalgötur, stígar og útivistarstígar sem tengja fyrirhugaðan grafreit við nærumhverfið. Útivistarstígar (malarstígar) liggja meðfram grafreitnum og tengja saman stígana innan garðsins við núverandi stíga sem liggja um Naustaborgir.

Klettarnir á svæðinu sunnanverðu eru aðalkennileiti svæðisins. Hugmyndir um önnur áhugaverð kennileiti sem myndu styrkja svæðið sem útivistarsvæði eru: 1) Útsýnispallur á hæsta punkti á klapparsvæði í norðurenda svæðisins. 2) Tjörn í fallegu umhverfi á suðurenda svæðisins. 3) Eitthvað áberandi, til dæmis stór kross, svipaður og er við núverandi kirkjugarð. Í norðurenda svæðisins er stórt og tignarlegt grjót umlukið trjám og er þar möguleiki á fallegum áningarstað tengdum náttúrunni.Hugmynd um útsýnispall í norðurenda svæðisins.

Gert er ráð fyrir allt að 4000 kistugröfum og 600 duftgröfum í 1. áfanga – Grafarsvæðin eru misstór og afmarkast af stígum og gróðri – Grafreiturinn gerir ráð fyrir fjölbreytum gröfum innan svæðisins. Það er svæði fyrir öskudreifingu og ómerktar duft- og kistugrafir. Svæði fyrir öskudreifingu gætu verið við tjörnina og í skógarreit nyrst á svæðinu. Einnig er gert ráð fyrir minningar- og fósturreit.

Hægt er að útfæra kanta á ýmsan máta bæði sem sæti og fyrir leik.

Gert er ráð fyrir svæði - hringurinn innan hvíta rammans - fyrir um 600 duftgrafir, en hægt verður að bæta við duftgrafasvæðum í garðinum eftir því hvernig kröfur og graftrarsiðir í samfélaginu þróast.

Gert er ráð fyrir möguleika á öskudreifingu á tjörninni í suðurenda svæðisins og í skógarreit/klapparsvæði á norðurhluta svæðisins og við klettana.

Starfsemi kirkjugarðsins er í gangi allt árið um kring þó svo að hann verði mest notaður til útivistar á sumrin. Landslagsmenn segir að til að að auka aðdráttarafl í garðinn allt árið um kring þurfi m.a. að huga að því að skýla fyrir vindi og reyna að auka hitastigið með skjóli. Vel útfærð lýsing geti myndað ævintýralega stemningu og skapað aðlaðandi andrúmsloft á dimmum vetrardögum. Sígrænn gróður sé fallegur yfir veturinn og gróður með sterkum árstíðarlitum geti haft mikið aðdráttarafl, sérstaklega á haustin. Þytur í trjám og gróðri geti einnig stuðlað að róandi hljóðvist, gott dæmi um það sé þytur í laufum blæasparinnar.